Ríkisráð var kvatt saman á Bessastöðum í dag til reglulegs fundar. Frá og með morgundeginum tekur því gildi forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Venjan er að ríkisráð komi saman á gamlársdag en víkja varð frá þeirri hefð þann 31. desember síðastliðinn vegna kórónuveirusmita í ráðherrahópnum. Þess í stað fór fundurinn fram í dag, 31. janúar.
Í dag er jafnframt fimmti mánudagur janúarmánaðar og þykir sumum nóg um. Þá er gott að minna sig á að frá fyrsta degi janúarmánaðar til hins síðasta hefur daginn lengt um tæplega 3 klukkustundir. Um það leyti sem góan hefst um miðjan febrúar munum við njóta dagsbirtu í 8 klukkustundir, en þangað til þreyjum við þorrann!
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.