Fréttapistill | 02. feb. 2022

Smitgát

Nú hefur það gerst að elsti drengur okkar Elizu greindist með veiruna. Blessunarlega er hann samt eldhress og getur verið í einangrun hér heima. Sjálfur er ég í smitgát eins og forsætisráðherra, þríbólusettur. Ýmsa fundi er unnt að halda með stafrænum hætti en ekki er ráð að vera í margmenni og því þarf að fresta merkum viðburði sem til stóð að halda á morgun, veitingu nýsköpunarverðlauna forseta.

Eliza Reid þarf að vera í sóttkví ásamt hinum börnunum þar sem hún fékk Jansen-bóluefni og aðeins er vika liðin frá þriðja skammti hennar. Við hjónin færum öllum, sem nú eru veik af veirunni, batakveðjur. Sömuleiðis fær allt fólk í sóttkví, einangrun eða smitgát góðar kveðjur. Smitrakningarteymið öfluga hefur sent spurningalista og fylgst með líðan stráksa. Allt er það mjög fagmannlega gert og við lýsum enn aðdáun okkar og þakklæti í garð heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem hafa staðið veiruvaktina í rúm tvö ár.

Núna virðist hilla undir lok þeirra róttæku aðgerða sem grípa þurfti til í heimsfaraldrinum. Við þreyjum þorrann en vonandi getum við bráðum litið um öxl, strokið um frjálst höfuð og sagt: Ekki fór allt alveg eins og best var á kosið en okkur tókst þetta samt.

Á myndinni erum við Eliza á Símamótinu góða í fyrrasumar, í klassískum smitgátar- og sóttkvíarklæðnaði.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar