Um helgina átti ég góða daga norðan heiða, naut þar gestrisni og velvilja heimafólks. Fyrst hitti ég húsráðendur á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði, þau Gunnar Sigurðsson og Svanhildi Pálsdóttur. Haustið 2020 þurfti að skera allt fé niður þar vegna riðu, eins og víðar í firðinum. Við ræddum landsins gagn og nauðsynjar ásamt Hrefnu Jóhannesdóttur, oddvita Akrahrepps, og Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra í Skagafirði.
Að kvöldi laugardags fór ég svo í Samkomuhúsið á Akureyri og naut frumsýningar Leikfélags Akureyrar á nýrri leikgerð Skugga-Sveins, hins sívinsæla leikrits Matthíasar Jochumssonar sem hefur víst verið sett oftar á svið en nokkurt annað verk á Íslandi. Leiknum var vel tekið eins og vænta mátti.
Á sunnudagsmorgni hlýddi ég á messu í Akureyrarkirkju þar sem sr. Svavar Alfreð Jónsson þjónaði fyrir altari. Eftir hádegi lá leið mín svo á Hælið í Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Þar kynnti ég mér hina merku sýningu um sögu berklanna á Íslandi sem María Pálsdóttir leikkona á veg og vanda af. Kvöldið áður var hún einmitt á fjölunum í Samkomuhúsinu og er henni greinilega margt til lista lagt.
Nyrðra átti ég einnig fundi með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri. Við ræddum ýmis sóknarfæri, sem eru í boði fyrir höfuðstað Norðurlands, og mikilvægi þess að fólk geti fundið kröftum sínum farveg um landið allt.
Síðdegis í gær lauk norðurför minni svo með því að ég lagði leið mína í KA-heimilið og fylgdist með leik heimamanna í handknattleik gegn Stjörnunni, með Ingvar Má Gíslason, formann KA, mér við hlið á áhorfendabekkjunum. Gestrisni Akureyringa og góðvild entist ekki út leikinn, þeir lögðu aðkomumenn undir stjórn bróður míns Patreks í spennandi leik. Ég þakka hins vegar kærlega góðar móttökur og í íþróttasalnum rifjaði upp ég ófáa morgunverði þar á ungmennamótum í fótbolta undanfarin ár.
Hvers kyns afþreying og menningarstarfsemi eru meðal meginstoða öflugs samfélags í hverri heimabyggð. Mér þótti vænt um að fá sönnun þess í heimsókninni, geta notið skemmtilegra viðburða og hitt mann og annan. Í blálokin bæti ég því við þökkum fyrir notalegt spjall við pottverja í Sundlaug Akureyrar. Þar vorum við sammála um að sundlaugar eru meðal helstu kosta þess að búa á Íslandi og er þó af mörgu að taka.
Viðtal um norðurferðina má lesa á frétta- og mannlífsvefnum Akureyri.net.
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.