Í morgun ræddi ég við Heimi og Gulla á Bylgjunni um keppnisíþróttir og aðstöðu til að fylgjast með þeim. Við fórum yfir þá leiðu staðreynd að kvennalandslið Íslands í knattspyrnu mun leika tvo fyrstu leiki sína á Evrópumótinu í knattspyrnu á Englandi á litlum æfingavelli. Löngu er uppselt á þá leiki og víst að mun fleiri Íslendingar hefðu viljað styðja stelpurnar okkar þar ytra.
Þetta segir því miður sitt um þann kynjamun sem ríkir í heimi alþjóðaknattspyrnu. Ekki er beðið um að leikir fari fram á stærstu leikvöngum Englands en þessar öfgar í hina áttina eru engum til sóma.
Svo ræddum við um þá nýju þjóðarhöll fyrir inniíþróttir sem ríki og borg ætla að reisa í sameiningu. Einnig var komið inn á stöðu þjóðarleikvangsins í knattspyrnu en við þá umræðu má bæta að í þeim efnum erum við líka á undanþágu á alþjóðavettvangi þannig að þar er einnig skjótra aðgerða þörf. Að sama skapi þarf líka að benda á bága aðstöðu frjálsíþróttafólks.
Ég hef við ýmis tilefni rætt um nauðsyn nýrrar þjóðarhallar og þótti ekki leitt að nefna það einu sinni enn í þessu viðtali. Vissulega mun hún kosta sitt en það gerði Laugardalshöllin líka á sínum tíma og ár hvert er drjúgum fjármunum varið í uppbyggingu íþróttamannvirkja, landi og lýð til heilla. Og þótt höllin okkar geymi ýmsar góðar minningar verður ekki fram hjá því litið að hún stenst ekki nútímakröfur, elsta þjóðarhöll í Evrópu. Þar að auki komast gjarnan færri en vilja á leiki Íslands þar. Því miður hefur dregist að hefja framkvæmdir svo að nú verður að hafa hraðar hendur – annars gæti hæglega farið svo að við Íslendingar þyrftum að heyja okkar „heimaleiki“ lengst utan landsteinanna.
Þetta er hægt ef vilji er fyrir hendi. Fyrir meira en hálfri öld gat þessi þjóð reist Laugardalshöllina. Nýrri kynslóðir geta hæglega fylgt því fordæmi. Höllin rísi!
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.