Þessa dagana er ég í Kaliforníu í Bandaríkjunum, vil stuðla að því að íslenskt mál festist í sessi í stafrænum heimi. Hér er öflug sendinefnd að heiman, menningar- og viðskiptaráðherra, fulltrúar Almannaróms og fleiri.
Á milli funda náði ég að heimsækja háskólann í San Jose. Þaðan lauk faðir minn Jóhannes Sæmundsson háskólaprófi í íþróttafræðum á sínum tíma. Ég ræddi við Stephen Perez rektor og aðra við skólann, meðal annars um mikilvægi lýðheilsu í samfélaginu. Svo fékk ég fróðlega leiðsögn um háskólagarðinn.
Þá nam ég staðar við minnismerki um íþróttamennina Tommie Smith og John Carlos. Þeir voru við nám í San Jose um svipað leyti og faðir minn, unnu til verðlauna á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 og tóku við þeim með kreppta hnefa í svörtum hanska. Með þeim táknræna hætti studdu þeir réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Stjórnvöld bannfærðu þá fyrir vikið og glæstum íþróttaferli lauk. Það var ekki fyrr en löngu síðar að þeir voru teknir í sátt og nú þykja mótmæli þeirra frekar vera allrar virðingar verð.
Mér þótti vænt um að halda á þessar slóðir föður míns og þakka því góða fólki sem tók á móti mér í San Jose.
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.