Fréttapistill | 04. júní 2022

Íslensk íþróttaafrek í Þýskalandi

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússson urðu í vikunni Þýskalandsmeistarar í handknattleik með liði sínu, Magdeburg. Ég óska þeim hjartanlega til hamingju. Þetta er mikið afrekið, þýska deildin sú öflugasta í heimi og þeir tveir burðarásar í liðinu.

Ég hef ekki enn náð mér í sjálfu með þeim félögum en set hér í staðinn, og til gamans og fróðleiks, ljósmynd af landsliði Íslands í handknattleik karla, skipuðu leikmönnum 21 árs og yngri, árið 1979. Þar var Kristján Arason, faðir Gísla, meðal leikmanna og sömuleiðis Alfreð Gíslason sem þjálfaði lið Magdeburg með frábærum árangri á sínum tíma.

Aðrar góðar kempur má líka sjá á myndinni. Jóhann Ingi Gunnarsson þjálfaði liðið og faðir minn, Jóhannes Sæmundsson, var aðstoðarþjálfari.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 4. júní 2022.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar