Í nýliðinni viku hélt ég í opinbera heimsókn í Skaftárhrepp. Þar naut ég gestrisni og góðvildar heimafólks og þakka kærlega fyrir góðar móttökur. Gaman var að kynnast mannlífinu í þessari fallegu sveit, hitta unga sem aldna og hér nefni ég sérstaklega afmælishátíð Kirkjubæjarskóla. Aftur til hamingju, nemendur og starfslið fyrr og síðar! Nýkjörinni sveitarstjórn óska ég líka velfarnaðar og auðvitað öllum íbúum byggðarlagsins.
Málstofa um sóknarfæri í Skaftárhreppi var fróðleg og skýrt merki um sóknarhug síðustu ára má sjá í því að nú eru fleiri börn í leikskóla en grunnskóla á þessum slóðum. Fundir og samkomur voru fyrirtak en ofarlega í minningunni verður líka frábær hreyfing, hjólaferð frá Mörtungu inn í fjallasal. Þar blöstu við gil og fossar um leið og bisast var upp hlíðar eða geyst niður brattar brekkur. Útivist í fögru landi, hvað er betra? Njótum sumarsins, kæru landar.
Fleiri myndir frá Skaftárhreppi má sjá á vefsíðu embættisins.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 5. júní 2022.