Áfram Ísland! Við öll, sem erum í Kópavogi á stærsta fótboltamóti landsins, sendum stelpunum okkar á Evrópumótinu okkar bestu stuðningskveðjur. Fleiri kveðjur koma frá öðru stelpumóti fyrr í sumar á Sauðárkróki og strákamóti á Akureyri.
Liðsmenn landsliðs okkar úti á Englandi stigu sín fyrstu skref í boltanum á viðburðum eins og þessum - glæsilegum mótum þar sem fjöldi sjálfboðaliða, þjálfara og annarra stuðlar að því að börn fái að leika og leika sér, læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, sýna háttsemi, fagna velgengni og þola smá mótlæti - allt þetta er hægt að gera svo vel þegar rétt er á málum haldið. Og svona er þetta langoftast á þessum frábæru mótum, það er a.m.k. mín reynsla.
Landsliðsstelpurnar okkar eru ekki eins góðar og þær eru af því að foreldri þeirra voru svo dugleg á hliðarlínunni við að skipa þeim að gefa fyrir eða tækla börn í hinu liðinu, og ekki heldur vegna þess að foreldrin kölluðu "leiðbeiningar" að kornungum dómurum eða af því að þjálfarar töldu allra mikilvægast að vinna leiki með öllum tiltækum ráðum - þær urðu frábærar í fótbolta af því að þær lærðu að æfingin skapar meistarann og að ekkert fæst með því að kenna öðrum um ef illa gengur. Og allt hefur sinn stað og stund - leikur barna og keppni hinna bestu þegar þar að kemur.
Ég þakka öllum sjálfboðaliðum, þjálfurum, starfsfólki og öðrum í Kópavogi, á Sauðárkróki og Akureyri fyrir þeirra þátt í þessum miklu skemmtunum - og auðvitað öllum líka á hinum stöðunum þar sem mót hafa verið og maður hefur fengið að mæta með börnunum sínum, stilltur og kátur eins og vera ber, úti í Eyjum, uppi á Skaga, suður með sjó, fyrir austan fjall, í heimabyggð og víðar.
Og koma svo, áfram Ísland!
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.