Viðburðaríkir dagar eru að baki frá mánaðamótum. Í ágústlok tókum við Eliza á móti þjóðhöfðingjum Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litáens og sendinefndum þeirra. Strax að þeim hátíðarviðburði loknum héldum við í opinbera heimsókn til Slóveníu, nutum þar gestrisni Boruts Pahors forseta og konu hans, Tönju Pečar.
Skömmu eftir heimkomuna flutti ég ávarp á Norræna líffæraígræðsluþinginu sem haldið var í Reykjavík. Þar hlýddi ég líka á frábæran fyrirlestur Guðmundar Felix Grétarssonar og Lionels Badets, eins læknanna sem sáu um að græða á hann nýja handleggi í Lyon í Frakklandi. Guðmundur Felix var einu sinni handlangari, nú er hann handhafi eins og hann hefur sjálfur sagt svo skemmtilega.
Hinn 1. september var þess minnst að hálf öld var þá liðin frá útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur. Samdægurs kom út rit mitt, Stund milli stríða. Saga landhelgismálsins, 1961–1971. Að kvöldi hélt ég síðan í Hljómahöllina og naut tónleika Más Gunnarssonar. Hann heldur senn til Lundúna og mun nema þar ýmis tónlistarfræði. Þetta var ljúf stund og útgáfa Más á Heyr mína bæn sérlega sniðug.
Á föstudaginn var lá leiðin í Reykjadal í Mosfellsdal, sumarbúðir Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þar var því fagnað að búið er að setja upp nýja rampa í snarhasti, fyrir tilstilli Haraldar Þorleifssonar athafnamanns og að frumkvæði hjónanna Unnar Aspar Stefánsdóttur og Björns Thors. Þetta var skemmtileg stund og ekki var síðra að geta um kvöldið fagnað sigri kvennaliðs Íslands í fótbolta á Laugardalsvelli. Fram undan er mikilvægur leikur við Hollendinga. Koma svo, áfram Ísland!
Á laugardaginn tók ég þátt í Forsetahlaupinu, almenningshlaupi sem Ungmennafélag Íslands og UMSK stóðu að á Álftanesi, með stuðningi Skokkhóps Álftaness og Hlaupahóps Stjörnunnar. Ég þakka öllum sem gerðu þennan viðburð eins glæsilegan og raun bar vitni og í þeim hópi eru auðvitað þau sem sprettu hér úr spori í einmunablíðu.
Síðar um daginn hlotnaðist mér sá heiður að planta trjám í Vinaskógi í Þingvallasveit með Vigdísi Finnbogadóttur sem lagði til að sá unaðsreitur yrði búinn til. Viðburðurinn var hluti af aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var um helgina.
Nánari upplýsingar um þetta og fleiri myndir má sjá á vefsíðu forsetaembættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 5. september 2022.