Fréttapistill | 12. sep. 2022

Krýningarafmæli og andlát drottningar

Í vikunni sem leið voru tíðar gestakomur á Bessastöðum en í vikulokin lá leið okkar hjóna af landi brott.

Á mánudag tók ég á móti hópi fulltrúa Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins, ásamt gestum þeirra úr röðum stjórnarandstöðunnar í Belarús og Rússlandi og fulltrúum úkraínskra stjórnvalda. Rætt var hvernig Eystrasaltsríkin og Norðurlönd geta stuðlað að jákvæðri þróun til framtíðar á þessum slóðum.

Á þriðjudag afhenti Anu Irene Laamanen trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Finnlands á Íslandi. Af því tilefni bauð ég til móttöku fyrir embættismenn og aðra sem sinna samskiptum Íslands og Finnlands.

Þá tók ég á móti forystusveit Golfsambands Íslands og fulltrúum golfklúbba um land allt í tilefni 80 ára afmælis sambandsins. Viðeigandi var að marka þau tímamót á Bessastöðum því Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, má einnig teljast einn fyrsti kylfingur landsins og sló kúlur á túnum Bessastaða á sínum tíma, að vísu með misjöfnum árangri.

Þá um kvöldið tókum við Eliza á móti úkraínska rithöfundinum Andrej Kúrkov, handhafa Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness í ár, og eiginkonu hans Elizabeth Sharp. Nýjasta verk Kúrkovs, sem kom út nú í september, er dagbók frá aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu en Kúrkov ferðast nú víða um heim og fjallar um þær hörmungar.

Á miðvikudag lá leið mín austur fyrir fjall þar sem ég sótti hátíðarstund í listasmiðjunni Líf og list í Flóahreppi, til heiðurs Sigríði Kristjánsdóttur, tréskurðarmeistara og listakonu. Síðdegis átti ég fund með alþjóðaforseta Lions hreyfingarinnar, Brian E. Sheehan, og konu hans Lori.

Loks varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að taka á móti íslenskum húsgögnum sem verða til sýnis og notkunar í suðurstofu Bessastaða næstu árin. Þar hefur íslensk hönnun verið í öndvegi frá árinu 2019 og eru húsgögnin valin í samráði við Hönnunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarins.

Á fimmtudag flutti ég ávarp við setningu fræðsludags MND-félagsins og bauð formanni og öðrum fulltrúum félagsins til móttöku að Bessastöðum. Síðdegis tók ég svo á móti nemendum og starfsliði Landgræðsluskóla Gró. Þau koma frá ýmsum ríkjum Afríku og Asíu og hafa kynnt sér aðgerðir á sviði landgræðslu hér á landi, meðal annars endurheimt votlendis líkt og unnið hefur verið að á Bessastöðum.

Eldri borgarar frá Akranesi komu einnig í heimsókn á Bessastaði þann dag, í fræðslu- og skemmtiferð á vegum Verkalýðsfélags Akraness.

Fimmtudaginn 8. september bárust tíðindin af andláti Elísabetar II. Bretadrottningar og færði ég bresku konungsfjölskyldunni og öllum íbúum Samveldisins samúðarkveðjur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Á föstudag lögðum við Eliza leið okkar í sendiráð Bretlands á Íslandi þar sem við rituðum nöfn okkar í minningabók um drottningu.

Nú um helgina höfum við síðan verið í Kaupmannahöfn þar sem þjóðhöfðingjar Norðurlanda komu saman ásamt fleirum til heiðurs Margréti II. Danadrottningu í tilefni 50 ára krýningarafmælis hennar fyrr á þessu ári.

Frekari upplýsingar um þessa viðburði má sjá á heimasíðu forsetaembættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. september 2022.

  • Hátíðardagskrá í Konunglega danska leikhúsinu á 50 ára krýningarafmæli Margrétar II. Danadrottningar.
  • Þjóðhöfðingjar Norðurlanda í Kaupmannahöfn í tilefni af 50 ára krýningarafmæli Danadrottningar.
  • Sigríður Kristjánsdóttir, tréskurðarmeistari og listakona segir frá verkum sínum í listasmiðjunni Tré og list að Forsæti í Flóahreppi.
  • Samúðarkveðja rituð í minningabók um Elísabetu II. Bretadrottningu, í sendiráði Bretlands á Íslandi. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands / Una Sighvatsdóttir
  • Samúðarkveðja rituð í minningabók um Elísabetu II. Bretadrottningu, í sendiráði Bretlands á Íslandi. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands / Una Sighvatsdóttir
  • Nemendur og starfslið Landgræðsluskóla GRÓ skoða aðgerðir til endurheimtar votlendis á Bessastöðum.
  • Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov, handhafi bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2022, og eiginkona hans Elizabeth Sharp á Bessastöðum
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar