Fréttapistill | 20. sep. 2022

Kaupmannahöfn, London, Bessastaðir

Vikan sem leið hófst í Kaupmannahöfn og henni lauk í Lundúnum. Þess á milli sótti ég einnig ýmsa viðburði hér heima.

Á mánudag flutti ég fyrirlestur við Kaupmannahafnarháskóla um sjálfstæði, samvinnu og hlutverk sögunnar í sjálfsmynd smáþjóða. Ég tók þar Ísland og Danmörku sem dæmi og ræddi meðal annars (á mjög ljúfum nótum) hversu lítinn áhuga danskir sagnfræðingar hafa haft á sögu Íslendinga, t.d. í samanburði við önnur lönd sem tilheyrðu og tilheyra enn Danaveldi.

Ytra vorum við Eliza svo viðstödd þegar riddaraskjöldur minn var afhjúpaður í Riddarakapellunni í Friðriksborgarhöll. Slíkir skildir fylgja fílaorðunni svonefndu, heiðursmerki danska ríkisins, sem við forsetar Íslands höfum verið sæmdir – fyrir utan Svein Björnsson. Myndir af skjöldum fyrri forseta má sjá í Bessastaðastofu.

Síðastliðinn þriðjudag var Alþingi sett við hátíðlega athöfn. Í ræðu minni brýndi ég þingmenn til að endurspegla samfélagið í heild og enduróma raddir fjöldans. Ég leyfði mér einnig að minna á að þrátt fyrir svo margt sem betur má fara hér heima og um víða veröld eru lífsgæði fólks betri á heildina litið nú en fyrr á öldum. Ég ítreka óskir til þingmanna um velfarnað í störfum sínum, landi og þjóð til heilla.

Á þriðjudag tók ég einnig á móti sendiherrum frá Alsír, Mongólíu, Kósovó og Panama sem öll afhentu trúnaðarbréf sín á Bessastöðum.

Fimmtudaginn 15. september var Rannsóknadagur Þjóðskjalasafns Íslands. Af því tilefni tók ég formlega við heildarsafni skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771. Þau veita einstæða innsýn í íslenskt samfélag á seinni hluta átjándu aldar. Þarna má lesa magnaðar heimildir um mannlíf liðins tíma. Sumt breytist, annað ekki.

Á föstudag flutti ég setningarávarp á námskeiði um hljóðanám og málörvun leikskólabarna. Þar minnti ég á þá staðreynd að fjöldi barna á leikskólum á foreldra af erlendu bergi brotnu og þjálfun og geta í íslensku hljóti að taka mið af því. Ég vakti einnig máls á því hvort ekki mætti gera minna af því að segja íslensku afar erfitt mál að læra. Sú er ekki endilega raunin í samanburði við fjölmörg önnur tungumál.

Síðdegis ávarpaði ég Alþjóðlegan leiðtogafund Rótarýfélaga. Um 1.200 manns eru í Rótarýklúbbum á Íslandi og vinna þarft verk í samfélagsþágu. Fundargestir komu víða að úr heiminum og tók ég á móti hluta þeirra á Bessastöðum á laugardag. Þá átti ég einnig fund með dr. Hans Kluge, forstjóra Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Við ræddum m.a. stuðning íslenskra stjórnvalda við heilbrigðisþjónustu í Úkraínu og annan atbeina í þágu úkraínsku þjóðarinnar. Kluge vakti einnig máls á nauðsyn aðgerða til að stemma stigu við ofþyngd barna og ungmenna sem getur valdið erfiðum sjúkdómum þá og síðar.

Um helgina lauk keppni á Evrópumótinu í hópfimleikum. Kvennalandslið Íslands lenti í öðru sæti. Ég óska stelpunum okkar til hamingju með fína frammistöðu.

Á sunnudagsmorgun héldum við hjónin svo til Lundúna til að taka þátt í dagskrá vegna andláts Elísabetar II. Bretadrottningar. Þann dag bauð Karl III. Bretakonungur til móttöku fyrir þjóðarleiðtoga og aðra erlenda gesti í Buckinghamhöll. Á mánudag fór útför drottningar fram frá Westminster Abbey. Athöfnin var söguleg og heiður fyrir okkur Elizu að vera viðstödd fyrir Íslands hönd.

Nánari upplýsingar um þetta og aðra viðburði má sjá á vefsíðu embættisins www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 20. september 2022.

  • Riddaraskjöldur fílaorðunnar afhjúpaður í Friðriksborgarhöll. Skjöldinn hannaði Ronny Skov Andersen.
  • Setning námskeiðs um hljóðanám og málörvun leikskólabarna í Gerðubergi í Reykjavík.
  • Frá setningu Alþingis. Ljósmynd: Bragi Þór
  • Rætt við Karl III. Bretakonung í Buckinghamhöll. Ljósmynd: Fergus Burnett / fergusburnett.com
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar