Fréttapistill | 03. okt. 2022

Grænlenskir gestir og snögg hringferð um landið

Í nýliðinni viku bar það meðal annars til tíðinda að ég fékk góða gesti í heimsókn á Bessastaði, ungmenni frá austurströnd Grænlands sem komu hingað til lands að læra sund og kynnast mannlífinu hér. Frá árinu 2005 hafa Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, og taflfélagið Hrókurinn átt veg og vanda af slíkum heimsóknum ár hvert (fyrir utan síðustu ár vegna heimsfaraldursins). Stefán Herbertsson, stjórnarmaður í Kalak, og Hrafn heitinn Jökulsson voru frumkvöðlar í þessum efnum.

Ekki komu allir gestir eins langt að. Má þar meðal annarra nefna fólk sem sækir dagvist aldraðra í Þorraseli við Vesturgötu í Reykjavík. Sá hópur heimsótti Bessastaði, fræddist um sögu staðarins og ræddum við auk þess um landsins gagn og nauðsynjar.

Á föstudaginn var hélt ég norður yfir heiðar. Snemma morguns heimsótti ég Minjasafn Akureyrar í tilefni þess að það fagnar í ár 60 ára afmæli. Þar að auki er öld liðin frá því að fyrsta Nonnabókin kom út en Nonnahús skipar veigamikinn sess í safninu.

Að því loknu flutti ég setningarávarp á málþingi við Háskólann á Akureyri til heiðurs Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands. Var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við skólann. Í máli mínu nefndi ég meðal annars áform um breytingar á stjórnarskrá Íslands í áranna rás og skoðanir Ólafs í þeim efnum. Fróðlegt var að hlusta á ögrandi sjónarmið hans og allur var þessi viðburður hinn skemmtilegasti og Háskólanum á Akureyri til sóma.

Í hádeginu snæddi ég málsverð í Fjölsmiðjunni á Akureyri og fræddist um starfsemi hennar undir leiðsögn Erlings Kristjánssonar forstöðumanns. Í Fjölsmiðjunni gefst ungu fólki, sem þarf á aðstoð að halda, tækifæri til að vinna ýmis störf og efla hæfni sína.

Síðdegis lá leiðin í Ólafsfjörð. Þar naut ég kvöldverðar með nemendum og starfsliði Menntaskólans á Tröllaskaga, auk ýmissa gesta úr Fjallabyggð. Skólinn tekur nú þátt í Erasmusverkefninu „Matur og menning“ með þátttöku ungmenna frá Ítalíu og Spáni. Lögð er áhersla á matarhefðir og sjálfbærni og svignuðu borð undan hvers kyns þjóðlegum kræsingum. Ég þakka heimafólki í Ólafsfirði fyrir gestrisni þeirra og góðvild. Hugur minn er hjá Ólafsfirðingum eftir voðaverk þar fyrr í þessari viku.

Að veislu lokinni á föstudagskvöld var ekið að Laugum og gist þar í góðu yfirlæti. Snemma á laugardag var ég svo kominn að Möðrudal á Fjöllum. Þar fékk ég mér kaffi með þeim Elísabetu Svövu Kristjánsdóttir og Vilhjálmi Vernharðssyni sem reka öfluga ferðaþjónustu á staðnum. Ég notaði tækifærið og þakkaði þeim og öðrum á staðnum ómetanlegan atbeina og aðstoð þegar koma þurfti ferðalöngum á þessum slóðum til bjargar í ofsaroki á dögunum.

Illviðrið olli víða tjóni, ekki síst á Reyðarfirði. Meðal annars skemmdist slökkvistöðin og fór ég yfir stöðu mála þar með Jóni Birni Hákonarsyni bæjarstjóra, Sigurjóni Valmundssyni slökkviliðsstjóra og fleirum.

Síðar þennan laugardag sótti ég svo árlegan Tæknidag fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Margt var þar að sjá og mér hlotnaðist sá heiður að veita verðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð. Júlíus Sigurðarson og Svanur Hafþórsson úr Nesskóla báru sigur úr býtum fyrir verkefnið Þaraplast. Mörg önnur ungmenni tóku þátt og sýndu hvað í þeim býr. Ég þakka öllum sem komu að Tæknideginum fyrir frábært framtak.

Frekari upplýsingar má að vanda finna á heimsíðu forsetaembættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 3. október 2022.

  • Kvöldverður með nemendum og starfsliði Menntaskólans á Tröllaskaga, auk ýmissa gesta úr Fjallabyggð. Skólinn tekur nú þátt í Erasmusverkefninu „Matur og menning“ með þátttöku ungmenna frá Ítalíu og Spáni.
  • Ungmenni frá austurströnd Grænlands heimsækja Bessastaði en þau komu hingað til lands á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, og taflfélagsins Hróksins, til að læra sund og kynnast mannlífinu.
  • Á málþingi við Háskólann á Akureyri til heiðurs Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, sem sæmdur var heiðursdoktorsnafnbót við skólann.
  • Kvöldverður með nemendum og starfsliði Menntaskólans á Tröllaskaga, auk ýmissa gesta úr Fjallabyggð. Skólinn tekur nú þátt í Erasmusverkefninu „Matur og menning“ með þátttöku ungmenna frá Ítalíu og Spáni.
  • Gestir frá dagvist aldraðra í Þorraseli í Reykjavík heimsækja Bessastaði.
  • Slökkvistöðin í Reyðarfirði.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar