Fréttapistill | 10. okt. 2022

Sendiherrar, kvikmyndahátíð, forvarnir og fleira

Í nýliðinni viku var Forvarnardagurinn haldinn. Af því tilefni ræddi ég við nemendur í 9. bekk Austurbæjarskóla í Reykjavík og nema Tækniskólans sömuleiðis. Ég nefndi þá meðal annars það frumkvöðlastarf sem samtökin Vímulaus æska og fleiri stóðu að undir lok síðustu aldar. Þótt ætíð sé verk að vinna getum við Íslendingar fagnað því að ungmenni samtímans eru flest móður- og föðurbetrungar þegar kemur að umgengni við áfengi, tóbak og harðari vímuefni.

Í vikunni tók ég einnig á móti nýjum sendiherrum Bandaríkjanna og Frakklands hér á landi og óska þeim alls velfarnaðar. Þá hitti ég fyrrverandi fulltrúa á Bandaríkjaþingi á Bessastöðum og var fróðlegt að ræða við þau um landsins gagn og nauðsynjar.

Á miðvikudag flutti ég opnunarávarp á Umhverfisdegi atvinnulífsins og afhenti verðlaun Samtaka atvinnulífsins til Norðuráls og Sjóvár.

Þá um kvöldið bauð ég til móttöku á Bessastöðum fyrir gesti á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF. Þar afhenti ég spænsku leikkonunni Rossy de Palma heiðursverðlaun hátíðarinnar. Tvær fróðlegar heimildamyndir sá ég í vikunni.

Sundlaugasögur Jóns Karls Helgasonar lýsa vel mikilvægi sundlauganna í alþýðumenningu Íslendinga. Einnig fór ég á myndina Atomy sem Logi Hilmarsson leikstýrði en hún fjallar um ferð Brands Bryndísarsonar Karlssonar til Nepals. Brandur er fumkvöðull sem lamaðist fyrir neðan háls fyrir áratug og leitaði líkamsmeðferðar ytra.

Á föstudaginn var naut ég þess að sækja hátíð í Gerðaskóla í Suðurnesjabæ. Þar fagnaði fólk 150 ára afmæli skólans og var margt um manninn. Um helgina sótti ég svo umhverfis- og heilsuveisluna Lifum betur í Hörpu í Reykjavík. Þar mátti fræðast um umhverfisvænar vörur og þjónustu, holla lífshætti og annað í þeim dúr. Í samfélagi okkar verðum við að huga betur að lýð- og geðheilsu fólks. Þannig forvarnir margborga sig. Fólki líður betur og fjármunir sparast þar að auki þegar allt kemur til alls.

Síðastliðinn laugardag varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vígja listaverk úkraínsks listafólks á vegg Sandholtsbakarís við Laugaveg í Reykjavík. Við Eliza sátum einnig tónleika sem flóttafólk frá Úkraínu stóð að í Kolaportinu og vildi þannig þakka íslenskum almenningi stuðning og aðstoð eftir innrás Rússlandshers í land þess.

Sama dag sæmdi ég unga skáta Forsetamerki skátahreyfingarinnar við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju. Það er ætíð skemmtileg stund og óska ég skátum landsins alls velfarnaðar. Í illviðri um helgina reyndi á liðsmenn hjálparsveita skáta og aðrar björgunarsveitir. Betur fór en á horfðist en áfram vorum við minnt á mikilvægi þessara sjálfboðaliða í samfélaginu hér.

Frekari upplýsingar af viðburðum liðinnar viku má sem fyrr sjá á heimasíðu embættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 10. október 2022.

  • Með nemendum Austurbæjarskóla á Forvarnardaginn.
  • Spænska leikkonan Rossy de Palma tekur við heiðursverðlaunum RIFF kvikmyndahátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn.
  • Opnunarávarp á Umhverfisdegi atvinnulífsins.
  • Nýr sendiherra Frakklands, Guillaume Bazard, afhendir trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum.
  • Ásamt Jóni Karli Helgasyni kvikmyndagerðarmanni á frumsýningu myndar hans Sundlaugasögur sem lýsa mikilvægi sundlauganna í alþýðumenningu Íslendinga.
  • Hátíð í Gerðaskóla í Suðurnesjabæ á 150 ára afmæli skólans.
  • Nýr sendiherra Bandaríkjanna, Carrin F. Patman, afhendir trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum.
  • Á þakkarhátíð Úkraínumanna í Kolaportinu ásamt Tetiana Korolenko, einum skipuleggjenda viðburðarins.
  • Frá viðburðinum Lifum betur í Hörpu í Reykjavík þar sem mátti fræðast um umhverfisvænar vörur og þjónustu og holla lífshætti.
  • Forsetamerki skáta afhent á Bessastöðum.
  • Með nemendum Tækniskólans á Forvarnardaginn.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar