Í vikunni sem leið bar hæst að við Eliza héldum í opinbera heimsókn til Slóvakíu. Í forsetahöllinni í Bratislava var tekið á móti okkur með brauði og salti að slavneskum sið og nutum við í hvívetna gestrisni Zuzönu Čaputová, forseta Slóvakíu, og maka hennar, Juraj Rizman. Með okkur í för var sendinefnd fulltrúa úr viðskiptalífinu á Íslandi sem hyggjast efla samstarf við Slóvaka á sviði jarðhitanýtingar, rannsókna og nýsköpunar.
Slóvakía býr yfir þeirri auðlind sem jarðhiti er og við getum miðlað reynslu og þekkingu í þeim efnum. Slóvakar keppa nú að því að verða sjálfbærir í sinni orkuöflun, bæði vegna umhverfissjónarmiða og ekki síður vegna orkukreppu eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Við forseti Slóvakíu efndum því til viðskiptaþings um möguleika á samvinnu þjóðanna um jarðhitanýtingu. Ytra átti ég einnig fundi með forsætisráðherra og forseta þingsins og Eliza tók þátt í hringborðsumræðum um jafnréttismál ásamt maka Slóvakíuforseta.
Þá héldum við hjónin og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra til bæjarins Martin. Þar hittum við íslenska nemendur í læknisfræði og einnig nema í dýralækningum sem komu frá borginni Košice. Við þurfum að halda þessu samstarfi áfram og gaman var að spjalla við landa mína ytra sem létu vel af námsdvölinni þar.
Hér innanlands hófst vikan sem leið á kvennafrídeginum, mánudaginn 24. október. Þá sat ég málþing Sagnfræðingafélags Íslands um Ingibjörgu H. Bjarnason sem var kjörin á Alþingi fyrst kvenna. Verkum vikunnar lauk svo með ávarpi á aldarafmæli hjúkrunarheimilisins Grundar í Reykjavík. Þangað var gott að koma og þakka ég gestrisni og góðvild þar nú sem endranær.
Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.