Menntun er lykill að farsæld og framförum. Mikilvægt er að börnum og ungmennum líði vel í skólakerfinu. Íslensku menntaverðlaunin eru merkt framlag til að heiðra það sem vel er gert þar. Það var því sannkölluð gleðistund þegar þessi ágætu verðlaun voru veitt á Bessastöðum. Verðlaunahöfum öllum óska ég innilega til hamingju, en þau eru:
Leikskólinn Rauðhóll í Reykavík fyrir fagmennsku og gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf.
Elísabet Ragnarsdóttir leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík fyrir einstaka fagmennsku við leikskólakennslu.
Þróunarverkefnið Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Það beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi.
Tækniskólinn fyrir átaksverkefnið #kvennastarf sem unnið hefur verið á hans vegum í samvinnu við aðra iðn- og verkmenntaskóla. Það beinist að því að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum.
Menntaskóli Borgarfjarðar sem hlýtur hvatningarverðlaunin í ár fyrir framsækna endurskoðun á námskrá með það að leiðarljósi að búa nemendur sem best undir áskoranir í lífi og starfi.
Nánari upplýsingar um Íslensku menntaverðlaunin og myndir af öllum verðlaunahöfum má sjá hér.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 3. nóvember 2022.