Reykjavík iðaði af tónlistarlífi í vikunni sem leið og naut ég góðs af því. Á þriðjudaginn sótti ég tónleika Vox Feminae í Háteigskirkju. Þeir voru hluti af veglegri dagskrá óperudaga sem lauk nú um helgina. Á fimmtudaginn var flutti ég ávarp á opnunarathöfn Iceland Airwaves á hjúkrunarheimilinu Grund. Það var einkar ánægjulegt eftir þriggja ára hlé á hátíðinni vegna heimsfaraldurs. Síðan tóku við tónleikar Sycamore Tree og Júníusar Meyvants. Auk íbúa Grundar var leikskólabörnum úr nágrenninu og erlendum hátíðargestum boðið að njóta þeirra. Tónlist getur sannarlega brúað bil milli kynslóða og menningarheima. Það gerðu líka tónleikar Skálmaldar, sem ég sótti í fullum Eldborgarsal um liðna helgi. Það er til marks um gróskuna í íslenskri tónlistarsenu að vel sé hægt að njóta ólíkra tegunda tónlistar í einni og sömu vikunni.
Og víðar er gróska í íslensku samfélagi. Í vikunni naut ég þess heiðurs að afhenda Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fjórar menntastofnanir og einn kennari eru handhafar verðlaunanna í ár. Ég ítreka hamingjuóskir til þeirra allra en líka þakkir fyrir metnaðarfullt og vandað starf með börnum og ungmennum.
Menntun er sífellt í mótun og þarf að þróast í takt við tímann. Ein af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum er að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi. Það var því ánægjulegt að funda í vikunni með Nönu Bule, framkvæmdastjóra hjá Microsoft. Hún kom hingað til lands til að fylgja eftir ferð minni, ásamt íslenskri sendinefnd, til Bandaríkjanna í vor. Þar töluðum við máli íslenskunnar gagnvart stórfyrirtækjum í tækniiðnaðinum og færðum þeim gagnasafn með íslenskum raddsýnum. Framkvæmdastjóri Microsoft segir þennan grunn nú þegar hafa komið sér vel í þróun máltæknilausna fyrir íslenskuna. Ég þakka öllum þeim þúsundum Íslendinga sem hafa lesið setningar inn í Samróm og þannig lagt sitt af mörkum.
Ný vika hófst svo á sunnudagsmorgni með göngu á Brekkukamb í Hvalfirði með góðum ferðafélögum. Þaðan er frábært útsýni á björtum degi, ósnortin náttúra og fegurð.
Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.