Gleðilegan fullveldisdag, kæru landsmenn! Fullveldi fékkst þennan dag árið 1918, fullt sjálfstæði og lýðveldi 17. júní 1944. Þann dag staðfesti Sveinn Björnsson, nýkjörinn forseti Íslands, lög í fyrsta sinn. Þau voru um þjóðfána lýðveldisins og í fyrradag tók ég á móti góðri gjöf á Bessastöðum, þjóðfána sem Sveinn hafði áritað og var gefinn á uppboði til styrktar dönskum uppgjafarhermönnum eftir seinni heimsstyrjöld.
Fyrir nokkru var fáninn boðinn upp á uppboðshúsi í Kaupmannahöfn. Vinafélag Þjóðminjasafnsins, Minjar og saga, átti hæsta boð, hreppti fánann og flutti til Íslands sumarið 2021 með stuðningi Eimskipafélags Íslands.
Það er svo tímanna tákn um framfarir og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna að nú er ég á leið á mikla ráðstefnu í Japan um jafnrétti kynjanna. Við millilendingu í Finnlandi sæki ég fullveldisfagnað í sendiráði Íslands í Helsinki. Því má fagna að þótt enn sé verk að vinna hér á landi höfum við Íslendingar getið okkur það gott orð á vettvangi jafnréttismála að fulltrúa Íslands er boðið sérstaklega til viðburðar um þau.
Frá Japan liggur leiðin svo til Frakklands þar sem fundir verða í tilefni þess að Ísland hefur tekið við formennsku í Evrópuráðinu. Næsta ár verður leiðtogafundur ráðsins síðan haldinn hér á landi, aðeins sá fjórði af því tagi í sögu þess. Þegar fullveldi og alþjóðasamvinna fara saman á framtíðin að vera björt.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.