Ísland hefur getið sér góðan orðstír erlendis fyrir árangur í jafnréttismálum. Í 13 ár höfum við vermt efsta sæti jafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins og með hverju árinu sem líður vekur það meiri athygli - jafnvel alla leið til Japan. Þar hef ég verið að störfum undanfarna daga.
Japanir sitja í 116. sæti jafnréttislistans en ráðamenn segjast hafa áttað sig á mikilvægi kynjajafnréttis í samfélaginu. Þeir líta til Íslands sem fyrirmyndar í þessum efnum og því var mér boðið að flytja opnunarerindi á ráðstefnunni World Assembly for Women í Tókýó um helgina og taka þar þátt í umræðum um leiðir til að stuðla að auknu jafnrétti. Reynsla okkar Íslendinga sýnir að hugarfar og samfélagsgerð getur gjörbreyst á skömmum tíma sé gripið til markvissra aðgerða.
Að loknu jafnréttisþinginu heimsótti ég borgina Tama í úthverfi Tókýó. Íbúar þar tóku á móti íslensku hópunum á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í Japan 2021. Það var ánægjulegt að færa borgarbúum þakkir fyrir alúð þeirra við afreksfólkið okkar. Nú stendur líka yfir Íslandsvika í þessari japönsku borg, í annað sinn.
Á sunnudaginn fór ég svo dagsferð í héraðið Fukishima. Þau okkar, sem sáu fréttamyndir af flóðbylgjunni miklu sem gekk yfir Fukushima árið 2011, gleyma þeim eflaust aldrei. Hamfarirnar ollu kjarnorkuslysi og enn er glímt víð afleiðingar þess. Í Fukishima sá ég draugabyggðir þar sem fólk hefur ekki átt afturkvæmt, en fór einnig í bæ þar sem fyrstu íbúarnir sneru aftur í ágúst á þessu ári. Í Fukushima fer fram gríðarmikið uppbyggingarstarf og eru stjórnvöld staðráðin í að héraðið skuli verða framtíðarvettvangur nýsköpunar í orkumálum, þar á meðal vetnisframleiðslu og þróun rafmagnsflygilda.
Japanir búa yfir sköpunarkrafti og seiglu. Þar getum við Íslendingar lært af þeim, rétt eins og þau geta lært af okkur í jafnréttismálum. Einmitt þannig sannar alþjóðasamstarf gildi sitt.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.