Nýliðin vika var viðburðarík. Leiðin lá frá Japan til Frakklands en endaði í Hörpu, með góðri viðdvöl á Húsavík.
Í Strassborg í Frakklandi ávarpaði ég fundi á vegum fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu en Ísland hefur nú tekið við formennsku þar. Því fylgir viðamikil dagskrá næstu mánuði sem lýkur formlega í maí 2023 með leiðtogafundi í Reykjavík undir stjórn forsætis- og utanríkisráðherra. Helsta markmið formennsku Íslands verður að efla grundvallargildi Evrópuráðsins; lýðræði, réttarríkið og mannréttindi. Fyrir því talaði ég á fundi ráðherranefndar ráðsins. Í Strassborg fundaði ég einnig með forseta Mannréttindadómstóls Evrópu og sótti sérstaka frumsýningu á kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land.
Frá Frakklandi lá leið mín nánast beina leið norður til Húsavíkur. Þar flutti ég ávarp þegar ný og endurbætt aðstaða fyrir þekkingarklasann Stéttina var opnuð. Nyrðra nýtti ég tækifærið, sat jólahlaðborð, sótti tónleika í Húsavíkurkirkju og heilsaði upp á heimamenn á öllum aldri. Ég drakk morgunkaffi með eldri borgurum á dvalarheimilinu Hvammi og heimsótti yngstu kynslóðina í íþróttaskólanum. Einnig kom ég við í slippnum við Húsavíkurhöfn þar sem Hollvinasamtök Maríu Júlíu vinna að því að varðveita það gamla björgunar- og varðskip sem á sér merka sögu.
Vikunni lauk með viðhöfn í Hörpu þar sem hátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna var haldin með miklum myndarbrag, í fyrsta sinn í Reykjavík.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.