Við getum víst ekki unnið alla leiki. Von um frekari frama á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla er afar veik eftir tap gegn Svíum í kvöld. Þá er það bara næsta mót! Finnum út hvað við getum gert betur og mætum enn öflugri til leiks.
Í kvöld horfði ég á leikinn hér á Bessastöðum með góðum hópi fólks, meðal annars nokkrum þeirra sem voru á vettvangi þegar við unnum B-heimsmeistaramótið í Frakklandi árið 1989, sællar minningar.
Sigurleikinn gegn Grænhöfðaeyjum í fyrradag sá ég svo með íbúum og starfsliði Hrafnistu í Hafnarfirði. Sá bær er þekktur sem vagga handboltans á Íslandi og það má öðrum fremur þakka Hallsteini Hinrikssyni (föður Geirs handboltakempu og afa Loga sonar hans sem líka gerði garðinn frægan). Fyrstur til að kynna handknattleik á Íslandi var þó Valdimar Sveinbjörnsson (afi Valdimars og Örnu Grímsbarna sem áttu farsælan feril í handbolta og hér hef ég aðeins breytt upphaflegri færslu í samræmi við sagnfræðilegar ábendingar í vinsamlegri athugasemd).
Ég þakka góðar viðtökur á Hrafnistu og þakka strákunum okkur góða skemmtun hingað til þótt við ofurefli hafi verið að etja í kvöld. Í það minnsta einn leikur er eftir og leggi menn sig alla fram er varla hægt að biðja um meira. Áfram Ísland!
Hér eru myndir af leikdögum á Bessastöðum og Hrafnistu, meðal annars af Jóni Hjaltalín Magnússyni, formanni HSÍ þegar sigur náðist 1989, Gunnari Þór Jónssyni, lækni liðsins þá, og tveimur öflugum leikmönnum, Geir Sveinssyni og Þorgils Óttari Mathiesen.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.