Saga sem hófst fyrir tæpum 70 árum í London fékk farsælan endi á Bessastöðum í gær. Þá tók ég á móti bókargjöf sem ætluð var Ásgeiri Ásgeirssyni forseta í tilefni sextugsafmælis hans árið 1954. Það sama ár varð Winston Churchill áttræður og gaf breska vikuritið The Illustrated London News út sérstakt afmælisrit honum til heiðurs. Félag Íslendinga í London festi kaup á því og hugðist færa forseta Íslands, sem var verndari félagins, ritið að gjöf, en sendingin komst aldrei til skila.
Ein af stofnendum Íslendingafélagsins í London var Guðbjörg Elínborg Þórðardóttir, síðar Elinborg Ferrier, og varðveittist ritið í fórum hennar, fjölskyldu hennar og afkomenda. Elinborg Ferrier lést árið 1983 en barnabarn hennar, Jón Ferrier, tók að sér að koma afmælisritinu á Bessastaði í gær, 69 árum eftir að það stóð upphaflega til. Ritið er áritað af þáverandi stjórnarmeðlimum Félags Íslendinga í London, þeim Birni Björnssyni og Jóhanni Sigurðssyni. Mér þótti við hæfi að fá sonardóttur Ásgeirs, Rögnu Þórhallsdóttur, til liðs við mig af þessu tilefni og saman fundum við gjöfinni stað í bókasafni Bessastaðastofu. Jóni Ferrier og fjölskyldu hans færi ég mínar allra bestu þakkir fyrir að varðveita gjöfina í alla þessa áratugi.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.