Eitt skot, ein sekúnda, einn millimetri. Þetta skildi á milli þess að strákarnir okkar kæmust í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í körfubolta. Það þarf hugrekki til að taka af skarið á örlagastundu og ekki vafðist það fyrir Elvari Friðrikssyni. Hann er í hópi okkar bestu íþróttamanna og átti frábæran leik gegn afar sterku liði Georgíumanna í gær þótt lokaskotið færi ekki ofan í körfuna í þetta sinn.
Rifjast þá upp fleyg orð Michaels Jordans, goðsagnar í heimi körfubolta og annarra íþrótta, um þrautseigju, seiglu og mikilvægi þess að gefast ekki upp: „Mér hafa mistekist yfir 9.000 skot þegar allt er talið. Ég hef tapað meira en 300 sinnum. Í 26 skipti hef ég klikkað á lokaskotinu. Æ ofan í æ hef ég reynt og mislukkast. Og þess vegna hefur mér vegnað vel.“
Lukkan var í liði Georgíumanna, þeir fara í úrslitakeppnina í stað okkar og óska ég þeim góðs gengis á mótinu. Um leið minnist ég gamals vinar frá Georgíu, Grígols Matchavariani, sem lést fyrir aldur fram árið 1996. Hann á skilið sæmdarheitið Íslandsvinur, var sannur aðdáandi Íslendingasagna og íslensks máls, ötull þýðandi bókmennta milli íslensku og georgísku. Í þessari frétt má m.a. lesa um kynni okkar Davíðs Oddssonar af honum.
Við Íslendingar náum ekki að keppa um heimsmeistaratitilinn í körfubolta karla en mér hlotnaðist sá heiður að koma höndum á heimsbikarinn. Fulltrúar Alþjóðakörfuknattleikssambandsins voru á Íslandi í liðinni viku og litu inn á Bessastöðum.
Af öðrum viðburðum má nefna stjórnunarverðlaun Stjórnvísi sem ég afhenti við hátíðlega athöfn í Reykjavík. Í ávarpi að verðlaunaafhendingu lokinni óskaði ég þessu ágæta fólki til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. Auk þess rakti ég að innflytjendur eru núna nær fjórðungur allra á vinnumarkaði og þess megi vonandi vænta að við sjáum senn skýr merki þeirrar þróunar í heimi stjórnenda og í tilnefningum til stjórnunarverðlauna.
Á sprengidag var mér boðið í hádegisverð hjá Sjálfsbjörgu og þakka ég gestrisni og góðvild á þeim bæ eins og fyrri daginn. Síðar þann dag afhentu fimm nýir sendiherrar trúnaðarbréf sín á Bessastöðum, frá Lúxemborg, Pakistan, Rúmeníu, Tyrklandi og Úganda.
Síðastliðinn föstudag var ár liðið frá því að Rússlandsher gerði innrás í Úkraínu. Ég sendi þá stuðningskveðju til forseta Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar allrar og ítrekaði stuðning stjórnvalda og almennings á Íslandi við baráttu Úkraínumanna fyrir frelsi og lýðræði. Kveðjan var sýnd í ríkissjónvarpi Úkraínu ásamt stuðningsyfirlýsingum annarra þjóðhöfðingja.
Á laugardag þáði ég boð á sýningu nemenda við Verzlunarskóla Íslands á söngleiknum Hvar er draumurinn? Hann er byggður á lögum Sálarinnar hans Jóns míns og var mikil og góð skemmtun.
Um helgina leit ég einnig við á bókamarkaðnum góða sem nú er til húsa undir stúkunni á Laugardalsvelli í Reykjavík. Þar má gera reyfarakaup og hvet ég fólk til þess að gera sér ferð þangað.
Og nú er hafin ný vinnuvika með ýmis verkefni fram undan. Að vanda má lesa um störf forseta á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 27. febrúar 2023.