Fréttapistill | 01. mars 2023

Tillögur berast til Lýðheilsuverðlauna

Yfir tuttugu tillögur hafa nú þegar borist um verðuga handhafa Íslensku lýðheilsuverðlaunanna. Þau verða afhent í fyrsta sinn síðasta vetrardag í ár. Opnað var fyrir tilnefningar í gær á vefsíðunni www.lydheilsuverdlaun.is og það gleður mig mjög að sjá svo góð viðbrögð strax á fyrsta sólarhringnum.

Bætt lýðheilsa er hagsmunamál alls samfélagsins. Hún snýst um bæði andlega og líkamlega heilsu og ég veit að þau eru fjölmörg sem vinna mikilsvert starf í þeim efnum. Verðlaunin verða veitt í tveimur flokkum og er þeim ætlað að vekja athygli á framlagi einstaklinga, félagasamtaka eða stofnana sem láta gott af sér leiða á sviði lýðheilsu.

Ég hvet ykkur öll til að gefa því gaum hvort í nærumhverfinu séu verkefni, stór eða smá, sem stuðla að bættri heilsu og líðan þjóðarinnar. Hver sem er getur sent inn tillögur með rökstuðningi á lydheilsuverdlaun.is fram til 20. mars. Tilnefnið því gott fólk, gott fólk!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 1. mars 2023.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar