Gleðilegan alþjóðlegan Downs-dag, öll sömul. Dagurinn er helgaður vitundarvakningu um rétt fólks með Downs-heilkenni til virkrar þátttöku í samfélaginu. Downs-dagurinn tengist einnig íhugunarefnum um fósturskimun. Rétturinn til þeirrar vitneskju sem þannig aflast þarf að haldast í hendur við hlutlæga upplýsingagjöf og þekkingu á lífi fólks með Downs-heilkenni. Sé rétt á málum haldið geta börn með Downs-heilkenni svo sannarlega átt bjart líf fyrir höndum.
Hefð er fyrir því að klæðast mislitum sokkum á Downs-deginum til að fagna fjölbreytileikanum á sýnilegan hátt. Sjálfur skarta ég nýjum sokkum sem Downs-félagið færði mér að gjöf. Jón Árni, þriggja ára, afhenti sokkana formlega og lék á als oddi á Bessastöðum. Þá færðu þær Arna Dís og Katla Sif okkur Elizu boli sem hannaðir voru í tilefni Downs-dagsins og prýddir eru andlitum þeirra tveggja. Ég þakka félaginu kærlega fyrir og óska öllum til hamingju með daginn.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.