Við hjónin erum nú komin heim úr opinberri heimsókn í Mýrdalshrepp, skemmtilegri og fróðlegri. Við fórum víða á tveimur dögum, kynntumst mannlífi og menningu, atvinnuháttum og ýmsum sóknarfærum. Mýrdælingar eru höfðingjar heim að sækja, enda alvanir að taka á móti gestum: Vík er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna á landinu öllu og samfélagið ber þess keim. Byggðin er í blómlegum vexti, börnum fjölgar og ríflega helmingur íbúa er af erlendum uppruna. Það var ánægjulegt að finna hversu vel Mýrdælingum hefur tekist að nýta þá fjölbreytni. Samfélagið stendur þétt saman þótt fólk tali ólík tungumál og menning geti verið ólík á ýmsa vegu.
Við Eliza fengum líka að kynnast náttúrunni sem þarna er allt um kring, gjöful að jafnaði en varhugaverð sömuleiðis. Það blés hressilega um okkur og um hríð var þjóðveginum lokað. Við tókum okkur heimamenn hins vegar til fyrirmyndar, enda sagt að Skaftfellingar hafi þróað með sér jafnaðargeð og æðruleysi í sambúð við náttúruöflin. Hér má sjá myndasyrpu frá heimsókninni og hátíðarávarp mitt til Mýrdælinga má lesa hér.
Fyrir hönd okkar Elizu þakka ég þá gestrisni og góðvild sem við nutum í Mýrdalshreppi.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.