Í vikunni sem leið bar hæst opinbera heimsókn okkar Elizu í Mýrdalshrepp. Ég þakka enn gestrisni og góðvild heimafólks í öflugu sveitarfélagi þar sem meira en helmingur íbúa er af erlendu bergi brotinn.
Af öðrum embættisverkum má nefna að í vikubyrjun kynnti ég mér starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Frá stofnun VIRK árið 2008 hafa um 20 þúsund Íslendingar, sem glíma við einhvers konar heilsubrest, notið stuðnings þessarar sjálfseignarstofnunar til þátttöku á vinnumarkaði. Sama dag tók ég móti hópi starfsnema frá sendiráðum norrænu ríkjanna á Íslandi og ræddi við þau um íslenska stjórnskipan, stöðu forseta og norrænt samstarf.
Þriðjudaginn 28. mars tók ég á móti þremenningum sem stóðu að undirskriftasöfnun vegna laga um breytingu á lögum um útlendinga. Lögin voru samþykkt á Alþingi þann 15. mars og höfðu rúmlega 2.100 manns ritað undir þá áskorun til forseta Íslands „að nýta neitunarvald sitt í þeim tilgangi að stöðva atlögu Alþingis til að lögfesta ómannúðlegt útlendingafrumvarp“.
Á fundinum röktu gestirnir, þau Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir, Askur Hrafn Hannesson og Íris Björk Ágústsdóttir, þau sjónarmið sem bjuggu að baki undirskriftasöfnuninni. Ég ræddi við þau um ótvíræðan rétt forseta til synjunar laga þannig að þau verði lögð í dóm kjósenda. Því valdi ber að beita af varfærni og þegar það var gert fyrr á þessari öld byggði það ekki síst á áskorunum tugþúsunda kjósenda. Að kvöldi dags voru lögin staðfest.
Á fimmtudaginn var flutti ég opnunarávarp Búnaðarþings í Reykjavík og heimsótti svo Kvikmyndasafn Íslands í Hafnarfirði. Þar fræddist ég um safnkostinn, sem geymir ýmsar gersemar, og naut þess meðal annars að sjá myndskeið þar sem fyrstu forsetar lýðveldisins komu við sögu. Söfn eru minni samfélaga. Án þeirra festumst við í tómi samtímans hverju sinni.
Um þetta og önnur embættisverk má lesa nánar á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta Íslands 3. apríl 2023.