Fréttapistill | 09. apr. 2023

Gleðilega páska, kæru landsmenn

Gleðilega páska, kæru landsmenn. Vonandi getur fólk notið páskahelgarinnar, jafnvel fundið stundir til að íhuga lífið og tilveruna. Ég sótti í morgun hátíðarguðsþjónustu í Bessastaðakirkju og þakka Hans Guðberg Alfreðssyni, presti Bessastaðasóknar, Vilborgu Ólöfu Sigurðardóttur djákna, sóknarkórnum og öðrum fyrir þeirra þátt í fallegri messu hér á Álftanesi.

„Höfum allir ein lög og einn sið.“ Þannig mælti Þorgeir Ljósvetningagoði árið 999, eftir að hann lagðist undir feld á Þingvöllum og reyndi að afstýra óöld í landinu. „Það mun verða satt,“ sagði hann víst einnig á Lögbergi, „er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.“

Kristin trú varð ofan á í landinu, samofin valdi en líka sem merkisberi mannúðar og síðar að mestu í sátt við upplýsingu, tæknibyltingar og trúfrelsi um okkar daga.

Áfram gildir hið fornkveðna að við skulum öll hafa ein lög, æðri öllum trúarbrögðum, en nú getum við haft marga siði. Fjölbreytni, frelsi og víðsýni bæta hag hvers og eins og heildarinnar allrar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 9. apríl 2023.

  • Páskamessa í Bessastaðakirkju.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar