Mánudaginn 10. apríl voru 40 ár liðin frá andláti föður míns, Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og þjálfara. Hann lést fyrir aldur fram eftir snögga baráttu við krabbamein. Að undanförnu hef ég farið yfir bréfa- og skjalasafn hans og nú hefur því verið komið fyrir á handritadeild Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns.
Þarna er meðal annars að finna fróðlegar heimildir um námsdvöl föður míns erlendis, t.d. upplifun hans af Bandaríkjunum á sjöunda áratugi síðustu aldar. Einnig eru þarna að mínu mati merkar heimildir um íþróttastarf á Íslandi. Ég þakka Marín Árnadóttur, sérfræðingi á handritadeild, fyrir alla hennar vinnu við að skrásetja safnið og koma því haganlega fyrir.
Í vikunni sem leið tók ég að vanda á móti fjölbreyttum hópum gesta á Bessastöðum. Fyrstan ber að nefna Phil Fontaine sem var lengi leiðtogi þings frumbyggja í Kanada. Í fyrra gekk hann á fund Frans páfa til að ræða rekstur kaþólsku kirkjunnar á heimavistarskólum þar í landi. Svo fór að páfi baðst afsökunar fyrir hönd kirkjunnar á þeim hörmungum sem fjölmörg börn frumbyggja þurftu að þola þar árum saman.
Á þriðjudag bauð ég velkomna eldri borgara frá Grafarvogskirkju sem komu í vettvangsferð til Bessastaða og þann sama dag tók ég á móti bandarískum náms- og fræðimönnum á vegum Fulbright stofnunarinnar.
Daginn eftir kom fjölmennur hópur fulltrúa Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, í heimsókn. Ég ræddi við þau um þann órofa þráð sem liggur milli sjálfstæðis ríkja og alþjóðasamvinnu. Ísland er gott dæmi um þjóðríki sem nýtur kosta fullveldis og sjálfstæðis en náinnar samvinnu við önnur ríki á öllum sviðum, enda væri hér óbúandi án hennar.
Sjálfstæði Íslands kom einnig fyrir í erindi mínu á aðalfundi Félags skipa- og bátaáhugamanna í vikunni. Fundinn sátu margir sem tóku þátt í þorskastríðunum á sínum tíma og fróðlegt var að ræða við þá um sögu þeirra átaka og landhelgismálsins alls.
Þann 12. apríl ávarpaði ég hátíðarsamkomu á 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni. Þar nefndi ég að stofnun skólans var á sínum tíma hluti menningar- og jafnréttisbyltingar í landinu, þegar ekki þótti sjálfsagt að börn gengju menntaveginn.
Í dag viljum við tryggja jafnan rétt allra til náms, en ekki síður jafnt aðgengi að bókum til yndislesturs. Þar leika almenningsbókasöfn lykilhlutverk, eins og ég minnti á í ávarpi mínu í Borgarbókasafninu um helgina. Safnið fagnar nú aldar afmæli og ánægjulegt var að ljúka vinnuvikunni í nýjasta útibúi safnsins í Úlfarsárdal með lestrarstund fyrir áhugasama krakka.
Um þessi embættisverk og fleiri má lesa á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 17. apríl 2023.