Fréttapistill | 19. apr. 2023

Lýðheilsuverðlaunin

Sagt hefur verið að heilbrigður maður eigi margar óskir en sú manneskja sem glímir við veikindi og vanlíðan aðeins eina, að njóta góðrar heilsu og hamingju. Við viljum tryggja að við búum í samfélagi þar sem fólki liður vel á sál og líkama. Það er ekki sjálfgefið – við þurfum að vinna markvisst að því á öllum sviðum. Því var það mér einstök ánægja að afhenda í fyrsta sinn Íslensku lýðheilsuverðlaunin á Bessastöðum, fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi.

Margt fólk sinnir lýðheilsu á marga vegu í landinu. Það sáum við á fjölda tilnefninga og dómnefnd var svo sannarlega vandi á höndum að velja úr þeim góða hópi þau sem tilnefnd voru. Svo fór að Snorri Már Snorrason hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki, en í flokki starfsheilda varð Miðstöð í lýðheilsuvísindum, HÍ fyrir valinu og tók Arna Hauksdóttir prófessor við verðlaununum fyrir hönd starfsfólks. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti þau verðlaun. Nánari upplýsingar um handhafa Íslensku lýðheilsuverðlaunanna má sjá hér á vefsíðu forsetaembættisins.

Auk embættis forseta standa heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að Íslensku lýðheilsuverðlaununum. Ég óska handhöfum þeirra og öllum þeim sem tilnefnd voru hjartanlega til hamingju. Um leið vil ég þakka öllum sem vinna að því að bæta líf og heilsu þjóðarinnar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Myndasafn frá afhendingu lýðheilsuverðlaunanna.

  • Ljósmynd/Eyþór Árnason
  • Ljósmynd/Eyþór Árnason
  • Ljósmynd/Eyþór Árnason
  • Ljósmynd/Eyþór Árnason
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar