Nú er ég á heimleið eftir ræðuhöld og fundarsetur í Strassborg. Þar ávarpaði ég þing Evrópuráðsins en Ísland fer nú með formennsku í ráðherranefnd þess. Þeirri formennsku lýkur með fjórða leiðtogafundi ráðsins í Reykjavík í næsta mánuði eins og kunnugt er. Ytra hitti ég forystufólk ráðsins að máli og flutti erindi á ráðstefnu um kynjajafnrétti og þátt karla og drengja í þeim efnum.
Í ávarpi mínu fyrir þingheimi Evrópuráðsins lagði ég líka áherslu á þann mikilvæga málaflokk, en ræddi einnig um þjóðernishyggju að fornu og nýju, nauðsyn þess að berjast gegn öfgum og illsku í hennar nafni en geta um leið lofað heilbrigða ættjarðarást í samfélaginu, samkennd og víðsýni, umburðarlyndi og ástúð á landi og umhverfi.
Ánægjulegt var að finna í Strassborg þann meðbyr sem formennska Íslands nýtur við hið mikla verkefni að skipuleggja leiðtogafundinn í maí. Á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja í Evrópu er mikilvægt að sameinast um grunngildi Evrópuráðsins, mannréttindi, lýðræði og réttarríkið.
Nánari upplýsingar um ferð mína til Strassborgar má finna á vefsíðu forsetaembættisins. Góða helgi.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta Íslands.