Fréttapistill | 15. maí 2023

Þetta reddast!

Nýliðin vika var viðburðarík í mínu starfi. Fyrri hluta hennar var ég í Fjarðabyggð, allt frá Mjóafirði í norðri til Breiðdalsvíkur í suðri, með dvöl að auki í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Reyðarfirði. Margt fróðlegt og skemmtilegt bar þar til, hjá fyrirtækjum og stofnunum, í skólum, dvalarheimilum og víðar. Ég þakka heimafólki fyrir gestrisni þeirra og góðvild.

Á fimmtudeginum var ég kominn í heimahaga og tók á móti góðum gestum á Bessastöðum: Nemendum og kennurum alþjóðlegs samningatækninámskeiðs í afvopnunarmálum sem friðarsetrið Höfði stendur að ásamt erlendum alþjóðastofnunum; Erasmus-grunnskólanemum frá Finnlandi, Kýpur og Portúgal og gestgjöfum þeirra við Grundaskóla á Akranesi; fréttastjórum norrænna ríkisfjölmiðla sem héldu árlegan vinnufund sinn hér á landi; liðsmönnum Rótarýklúbbs Amager í Kaupmannahöfn og loks gestum og fyrirlesurum á alþjóðlegri ráðstefnu í tilefni starfsloka Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Háskóla Íslands. Í stuttu ávarpi til heiðurs Hannesi Hólmsteini nefndi ég að hér væri vísir að því að draumur hans rættist, að leggja niður embætti forseta og breyta Bessastöðum í aðsetur vísinda og fræða.

Þetta reddast! Þennan dag tók ég einnig á móti eintaki nýrrar bókar dönsku fjölmiðlakonunnar og rithöfundarins Signe Amtoft. Hún heitir Det ordner sig og fjallar um Íslandsferð hennar, samtöl og rannsóknir á meintum þjóðareinkennum Íslendinga sem megi draga saman í máltækinu „þetta reddast“. Í þessari fróðlegu bók ræði ég við hana um kosti og galla þess að hampa þessum hugsunarhætti um of.

Á föstudagsmorgun tók ég á móti nemendum og starfsliði starfsbrautar Menntaskólans á Ísafirði. Hópurinn var hér syðra í kynnis- og fræðsluferð. Eftir það flutti ég opnunarerindi á alþjóðlegri ráðstefnu um framtíð öryggis- og varnarmála Evrópu sem fram fór í Grósku í Reykjavík. Ráðstefnan er haldin árlega í tengslum við ACONA námsleið Höfða friðarseturs um samningatækni á sviði afvopnunarmála. Í ávarpi mínu minnti ég meðal annars á mikilvægi þess að spornað verði við misnotkun sögunnar enda auðvelt að finna dæmi um þjóðarleiðtoga sem ali á tortryggni og jafnvel hatri í garð annarra í þágu eigin hagsmuna heima fyrir.

Í Reykjavík heimsótti ég einnig liðsmenn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en sambandið fagnar hálfrar aldar afmæli um þessar mundir. Þau hafa tekið í notkun nýtt húsnæði og hlotnaðist mér sá heiður að afhenda fyrrverandi formönnum heiðursmerki sambandsins.

Á laugardaginn var lá leið mín í Vík í Mýrdal. Þar afhenti ég verðlaun eftir Mýrdalshlaupið, vel heppnað víðavangshlaup sem nú hefur verið haldið tíu sinnum. Í stuttu ávarpi samhliða verðlaunaafhendingunni minnti ég á mikilvægi hreyfingar fyrir líkama og sál, en allt eftir getu og vilja hvers og eins.

Loks er þess að geta að í gær flutti ég lokaávarp á alþjóðamálþingi í tilefni af áttræðisafmæli Ólafs Ragnar Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Minnti ég þar á atbeina hans á löngum ferli innanlands sem utan, með einum eða öðrum hætti.

Frekari upplýsingar má að vanda finna á vefsíðu embættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar