Nú er leiðtogafundi Evrópuráðsins lokið í Reykjavík. Samkoman fór vel fram og svo kemur í ljós hvort umræður og ákvarðanir skila þeim árangri sem vonir standa til. Til fundarins var boðað vegna innrásar Rússlandshers í Úkraínu og á honum fékkst staðfest sú eining sem enn ríkir í Evrópu, fordæming á ofbeldi árásarliðsins, krafa um að því linni og farsæll friður komist á.
Sjálfur naut ég þess heiðurs að ávarpa leiðtoga aðildarríkjanna 46 og bjóða velkomin til Íslands þegar þau voru öll saman komin í Hörpu við upphaf fundar. Samhliða leiðtogafundinum átti ég svo tvíhliða fundi með kollegum mínum, forsetum Lettlands og Litháens, Grikklands, Tékklands, Slóveníu, Moldóvu og Póllands.
Að öllu þessu yfirstöðnu vil ég þakka öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd leiðtogafundarins. Þau eru fjölmörg - embættismenn, lögregla og annað varðlið, starfsfólk Hörpu og hótela í nágrenninu og loks forystusveit forsætisráðherra og utanríkisráðherra, að ekki sé minnst á samvinnu við Evrópuráðið og aðra úti í heimi.
Reykvíkingar og aðrir sem áttu leið um miðborgina eiga líka þakkir skildar fyrir samvinnu um þær lokanir sem þykja nauðsynlegar þegar leiðtogafundur er haldinn. Allt virðist hafa gengið vel og við getum kannski þakkað fyrir að samkoma af þessu tagi er ekki daglegur viðburður hér á landi. Um leið má þykja sjálfsagt að við Íslendingar göngumst við þeirri ábyrgð sem fylgir þátttöku í alþjóðasamstarfi. Lettland tekur senn við formennsku í Evrópuráðinu og óska ég vinum Íslands þar góðs gengis í því hlutverki.
Leiðtogarnir kynntust íslenskri veðráttu og sjálfur fékk ég að kenna á henni líka. Um leið og ég fékk regnhlíf í hendur í slagviðrinu milli hótels og Hörpu hugsaði ég með mér að nú færi fram merkileg tilraun. „Öllum hafís verri er taugahrollurinn í Austurstræti eftir hádegið," orti Dagur Sigurðarson á sínum tíma. Sviptivindar laust fyrir hádegi koma þar kannski í öðru sæti.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.