Gleðilegan sjómannadag, góðir landsmenn! Í morgun sótti ég samkvæmt venju minningarathöfn Sjómannadagsráðs um drukknaða sjómenn, við Minningaröldur í Fossvogskirkjugarði. Síðan sat ég sjómannadagsmessu í Dómkirkjunni. Liðsmenn Landhelgisgæslunnar lásu ritningarkafla þar og stóðu heiðursvörð í Fossvogi. Gafst þar tækifæri til að þakka fyrir síðast, þegar ég var um borð í Freyju og fylgdist með vel heppnuðum björgunaraðgerðum undir stjórn Friðriks Höskuldssonar skipherra þegar togarinn Hrafn Sveinbjarnarson varð vélarvana á Halamiðum. Fulltrúar Landsbjargar voru einnig við minningarathöfnina í morgun. Við Íslendingar njótum þess að eiga einvalalið hjá Landhelgisgæslunni og í björgunarsveitum landsins, ásamt öðrum sem eru ætíð til taks þegar nauðsyn krefur. Við megum minnast þess með stolti á þessum fallega degi um leið og við óskum íslenskum sjómönnum og öllum sæfarendum farsældar og öruggrar leiðar í höfn.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.