„Heill sé þér þorskur, vor bjargvættur besti.“ Þannig orti Hannes Hafstein á sínum tíma. Ekki skilja útlendingar það en enska útgáfan mætti vera „In Cod We Trust.“ Í nýlegri heimsókn til Nýfundnalands flutti ég erindi um þorskastríðin með því heiti. Heimamenn vita allt um mikilvægi fiskveiða og verndunaraðgerða. Eftir gegndarlausa ofveiði um árabil hrundi þorskstofninn á Miklagrunni (Grand Banks) úti fyrir Nýfundnalandi og hefur ekki náð sér á strik á ný. Erindi mitt var tekið upp af kanadíska ríkisútvarpinu CBC og hægt að hlusta á það hér.
Við Eliza nutum gestrisni og góðvildar Nýfundlendinga og margt er líkt með þeim og okkur hér heima. Þó höfum við ekki haft til siðs á Íslandi að kyssa þorskinn sem við drögum úr sjó, en í St. John's var okkur boðið að taka þátt í slíkri athöfn að hætti heimamanna og skoruðumst ekki undan því.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.