Þeir eru fagrir þessir síðsumardagar þegar veðrið leikur við okkur víðast um landið og hver hátíðin rekur aðra. Í vikunni sem leið var ég gestur á opnunarhátíð Hinsegin daga í Reykjavík. „Baráttan er ekki búin“ var yfirskrift hátíðahaldanna í ár. Þau orð minna okkur á að standa áfram vörð um þau mannréttindi sem áunnist hafa með þrotlausri baráttu í áraraðir. Um leið getum við verið stolt af því að búa í samfélagi þar sem fjölbreytnin fær núna að njóta sín, eins og sást svo vel í gleðigöngunni á laugardag.
Gleðin var líka við völd á Dalvík um helgina. Þar vorum við Eliza heiðursgestir á 20 ára afmæli Fiskidagsins mikla. Bæði fluttum við ræður en fyrst og fremst nutum við gestrisni heimamanna og fiskisúpu í hverju húsinu á fætur öðru. Takk fyrir mig!
Embættisverkin voru fleiri í vikunni. Á Bessastöðum átti ég kveðjufund með sendiherra Noregs, Aud Lise Norheim, sem senn lætur af störfum eftir farsæla dvöl í fjögur ár hér á landi. Þá tók ég á móti hópi Kanada- og Bandaríkjamanna af íslenskum ættum. Þau voru hér á landi á vegum Snorraverkefnisins, sem miðar að því að Vestur-Íslendingar kynnist sögu lands og þjóðar á æskuslóðum formæðra sinna og -feðra. Þá má geta þess að í vikunni synti ég Fossvogssundið svokallaða ásamt hundrað öðrum sjósundsköppum. Gaman er að sjá að sjósund nýtur vaxandi vinsælda um allt land. Fyrir þau sem vilja spreyta sig í fyrsta sinn er tilvalið að skella sér til sunds þessa dagana. Sjórinn er tæpar 15°C og gerist varla hlýrri við Íslandsstrendur.
Í gær varð ég þess heiðurs aðnjótandi að sækja afmæli Páls Bergþórssonar veðurfræðings. Hann er aldargamall og ber árin hundrað með reisn enda hefur hann ætíð sinnt eigin heilsu eftir bestu getu, frábær fyrirmynd í þeim efnum.
Og enn eru hátíðahöld fram undan. Um næstu helgi er menningarnótt í Reykjavík og af því tilefni verður opið hús hjá okkur á Bessastöðum. Við Eliza hlökkum til að taka á móti gestum og gangandi á laugardaginn kemur.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 14. ágúst 2023.