Ýmsir viðburðir nýliðinnar viku varpa ljósi á mikilvægi alþjóðasamstarfs fyrir okkur hér á Íslandi. Ég naut þess mjög að flytja ávarp síðasta föstudag við setningu EVE Fanfest, hátíðar tölvuleikjafyrirtækisins CCP. Því var fagnað að nú eru 20 ár frá því að leikurinn vinsæli, EVE Online, leit dagsins ljós en um leið má fagna því að hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki sjái sér hag í að hafa aðsetur hér á landi. Það eykur hag okkar og gerir atvinnulífið fjölbreyttara og framsæknara.
Á þriðjudaginn var tók ég á móti fjölmennri viðskiptasendinefnd frá Slóvakíu. Í opinberri heimsókn minni þangað í fyrra var rætt um mögulegt samstarf Íslendinga og Slóvaka á sviði jarðhitanýtingar þar í landi og nú er verið að kanna kosti í þeim efnum. Verksvit og reynsla okkar er vel þegin ytra.
Sama dag tók ég á móti nýjum sendiherrum fimm ríkja frá þremur heimsálfum. Í vikunni fékk ég líka forseta Möltuþings í heimsókn auk þingmanna frá Bretlandi. Öllum þykir hólið gott en fróðlegt var að heyra þessa góðu gesti lýsa því hversu margt mætti læra af því sem vel er gert hér á landi.
Þá var gaman að taka á móti fulltrúum Íslands á Evrópumóti iðn-, verk- og tæknigreina sem fram fór í Gdansk í Póllandi fyrr í mánuðinum. Okkar fólk stóð sig með sóma ytra. Í stuttu ávarpi á Bessastöðum minnti ég á mikilvægi þessara greina fyrir íslenskt samfélag og jafnframt hversu brýnt það sé að fólk á öllum aldri geti valið sér nám og starf eftir eigin áhugasviði.
Starfsvikunni lauk á laugardagskvöldi með ávarpi á afmælishátíð Átaks, félags fólks með þroskahömlun. Í máli mínu nefndi ég meðal annars að gæði samfélaga mætti meta á marga vegu, til dæmis með landsframleiðslu eða fjölda vísindamanna, listamanna og íþróttamanna sem skara fram úr á alþjóðavettvangi. Réttara væri þó jafnvel að fara eftir því hversu vel þeim er hjálpað sem þurfa dálitla aðstoð til að sýna hvað í þeim býr þrátt fyrir ýmsar áskoranir, sjálfum sér og samfélaginu öllu til heilla. Í þeim efnum hefur Átak gegnt mikilvægu hlutverki í 30 ár, veitt aðhald og bent á það sem betur má fara.
Frekari upplýsingar um störf og viðburði má finna á vefsíðu forsetaembættisins, www.forseti.is. Góðar stundir.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 25. september 2023.