Fréttapistill | 16. okt. 2023

Vikan sem leið

Við skulum hafa ein lög og einn sið, sagði Þorgeir Ljósvetningagoði á Þingvöllum árið 999 og afstýrði þannig ófriði milli kristinna og heiðinna. Nú er öldin önnur, með trúfrelsi og mannréttindum. Við höfum ein lög en marga siði. Þá þarf að berjast gegn andúð og hatri á grundvelli trúar og lífsskoðana. Eftir hinar hörmulegu árásir og átök í Ísrael og Palestínu gætir aukinnar andúðar í garð gyðinga og múslima víða um heim. Meira að segja hér á Íslandi geta landsmenn sem iðka þau trúarbrögð sætt aðkasti. Látum ekki saklaust fólk gjalda fyrir misgjörðir annarra.

Rúmum þúsund árum eftir kristnitökuna er friðsamlegt um að litast á Þingvöllum. Við Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður vorum þar nú fyrir helgi ásamt þúsundum erlendra gesta frá öllum heimsins hornum. Mér finnst ég aldrei geta mætt vetri í nánd án þess að njóta fyrst haustlitanna á þessum þjóðarstað okkar Íslendinga.

Margt annað dreif á dagana í nýliðinni viku. Á mánudaginn tók ég á móti aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Aminu Mohammed. Hún flutti aðalræðu á friðarráðstefnu í Reykjavík þar sem framtíðarsýn Norðurlanda í friðarmálum var til umfjöllunar. Sama dag flutti ég líka setningarávarp á málþingi Félags um barnabókasafn.

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn var á þriðjudag og tók ég þátt í dagskrá í Bíó Paradís. Þar var athygli vakin á mikilvægi geðheilbrigðis og nauðsyn þess að berjast gegn mismunun og fordómum í garð þeirra sem eiga við geðraskanir að stríða. Síðasta þriðjudag ávarpaði ég einnig ráðstefnu samtakanna Heyrnarhjálp um aðgengi að heyrn og tók loks á móti hópi kvenna úr Agora-klúbbnum á Íslandi. Við gengum að Skansinum á Bessastaðanesi með vindinn í fangið eins og raunin er gjarnan á þeim slóðum!

Á miðvikudaginn fór fram fjöruhreinsun hér á Bessastaðanesi með hjálp Landhelgisgæslunnar. Sjálfur reyni ég að plokka nærri heimilinu og einn sveitungi minn gengur þar fjörur reglulega, tínir upp rusl og lætur vita af stærri hlutum sem ekki er hægt að bera á brott. Nýverið þurftum við hins vegar að játa okkur sigraða. Tvo heljarinnar hjólbarða hafði rekið á land og góð ráð dýr í friðlandinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, var fengin til að hífa dekkin úr fjörunni. Í leiðinni fór fram sigæfing þar sem ég var hífður um borð. Ég þakka Landhelgisgæslunni og áhöfn TF-GRO fyrir fagleg vinnubrögð að vanda.

Á fimmtudag flutti ég opnunarávörp á tveimur ráðstefnum, annars vegar hjá Líffræðifélagi Íslands og hins vegar ráðstefnu Stígamóta um ofbeldismenn á Íslandi. Þar sagði ég meðal annars að þótt ofbeldi hafi fylgt mannkyni frá upphafi vega sé ekki þar með sagt að það hljóti að liggja í mannlegu eðli. Með aukinni þekkingu og fræðslu getum við tekist á við ofbeldi og ofbeldismenn þannig að þeir bæti ráð sitt.

Ríkisráðsfundur fór fram á Bessastöðum á laugardag og féllst ég þar á tillögu forsætisráðherra og staðfesti nýjan forsetaúrskurð um ráðherraskipan. Sama dag var móttaka á Bessastöðum fyrir gesti alþjóðlegu barnabókmenntahátíðarinnar Mýrarinnar.

Í gær sótti ég svo minningarstund styrktarfélagsins Gleym mér ei í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Ár hvert er 15. október tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi. Ég flutti þar stutt ávarp, hlýddi á reynslusögur og naut tónlistar Elínar Ey, Bubba Morthens og Rakelar Pálsdóttur.

Um þessi embættisverk á fleiri má lesa á vefsíðunni www.forseti.is. Góðar stundir.

 

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 16. október 2023.

  • Ljósmynd/Árni Sæberg
  • Ljósmynd/Mummi Lú
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar