Ég boðaði fulltrúa Samráðsvettvangs trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi til fundar á Bessastöðum í dag. Á fundinum hvatti ég alla viðstadda til að beita sér fyrir því að á þeirra vettvangi verði ætíð talað máli friðar, víðsýni og umburðarlyndis. Einnig nefndi ég að þeim bæri að sporna gegn því að fólk yrði fyrir aðkasti vegna trúar- eða lífsskoðana.
Við búum á Íslandi við ein lög en marga siði. Það felur í sér að hér eiga allir íbúar landsins að geta iðkað trú friðar og náungakærleiks í sátt við aðra. Yfir 30 manns frá 18 trú- og lífsskoðunarfélögum sóttu viðburðinn á Bessastöðum og þakka ég þeim sem höfðu tök á að koma.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 26. október.