100 ára! Ég óska Kvenfélagi Grindavíkur hjartanlega til hamingju með þann merka áfanga sem náðist í gær. Félagið var stofnað þann 24. nóvember 1923. Fyrir allnokkru þáði ég boð um að mæta til Grindavíkur í afmælisveisluna en eftir að bærinn var rýmdur varð ljóst að ekki yrði úr því. Þess í stað buðum við Eliza félagskonum á Bessastaði í gær þar sem við fögnuðum aldarafmælinu saman.
Kvenfélög um land allt hafa löngum verið með helstu máttarstólpum samfélagsins, driffjöður félagslífs og góðgerðarstarfs. Kvenfélag Grindavíkur er engin undantekning frá því. Þegar félagið fagnaði hálfrar aldar afmælinu 1973 var á það minnst í tímaritinu Faxa að það hefði verið stofnað „í einlægri trú á sigur hins góða". Það eru enn orð að sönnu og færði ég þeim innilegar þakkir fyrir þeirra góða og göfuga starf fyrir Grindvíkinga og landsmenn alla í heila öld.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 25. nóvember 2023.