Vandi fylgir vegsemd hverri. Ferðaþjónusta er orðin ein meginstoð íslensks efnahags og samfélags víða um land. Við verðum að tryggja að greinin þróist þannig að sem mest sátt ríki hér innanlands, starfsfólk uni við sinn hag, gestir haldi glaðir heim, náttúra skaðist ekki, og virðing sé borin fyrir íslenskri tungu og menningu í allri sinni fjölbreytni. Þetta og fleira nefndi ég í ávarpi á norrænni heimsminjaráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri í gær. Hún var á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og við sama tilefni naut ég þess heiðurs að afhjúpa skjöld við nýja gestastofu hans á Klaustri. Þar kemur fram að þjóðgarðurinn er á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
Í ferð minni fór ég einnig víða um Skaftárhrepp og þakka öllu heimafólki gestrisni þess og góðvild. Ég hélt meðal annars að Þykkvabæjarklausturskirkju og vitanum við Alviðruhamra, inn að Eintúnahálsi og alla leið í Blágil. Þar fékk ég dýrindis kjötsúpu með gangnamönnum og vona ég að leitir gangi vel. Réttað er í Skaftárrétt á laugardaginn kemur. Í þessari stuttu ferð frá fjöru til fjalla fann ég enn hversu fagurt landið er og hve mörg sóknarfæri leynast í ferðaþjónustu á þessum slóðum eins og víðar um landið. En hugum ekki aðeins að fjölda og vexti og aukningu á öllum sviðum. Stefnum að því að gera hlutina vel.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 7. september 2023.