Ég óska Íþróttamanni ársins 2023 hjartanlega til hamingju með verðskuldaðan heiður. Gísli Þorgeir Kristjánsson er frábær fyrirmynd, maður sem eflist við mótlæti, hugrakkur og kappsamur en um leið hvers manns hugljúfi. Við sama tækifæri var Sigrún Huld Hrafnsdóttir sundkona valin í Heiðurshöll ÍSÍ. Hún er vel að þeim heiðri komin eftir öll sín glæstu íþróttaafrek. Það var falleg stund þegar hún tók við þessari viðurkenningu. Ég óska öllu íþróttafólki farsældar á nýju ári og þakka þeim sem láta sig heilsu og hreyfingu varða. Fátt er eins mikilvægt í nútímasamfélagi.
Forseti Íslands hefur ætíð verið verndari íþróttahreyfingarinnar og verður það áfram. Í ávarpi mínu við afhendingu verðlaunanna í gær áréttaði ég að íþróttir eru frábær leið til þess að efla einingarhug þjóðar. Í stúkunni stöndum við öll saman. Áfram Ísland!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 5. janúar 2024.