Ég naut þess að taka á móti gestum hér á Bessastöðum í gærkvöldi. Eins og fyrr í minni tíð var opið hús í tilefni Safnanætur og hingað kom fjöldi fólks, þrátt fyrir hvassviðri og él á köflum. Gaman var að finna og sjá hve mikla virðingu landsmenn bera fyrir þessum fallega stað, virðingu sem er samofin hlýju eins og vera ber. Eliza er í starfsferð erlendis svo að ég var einn í gestgjafahlutverkinu í þetta sinn, tók á móti heldri borgurum sem þótti vænt um að koma hingað í fyrsta sinn og kurteisum krökkum sem maður náði að kenna – ef þörf var á ‒ að handtak skuli vera þétt um leið og horfa skuli í augu þess sem heilsað er. Gott þótti mér líka að taka á móti fólki sem hefur flutt hingað að utan og vill leggja sitt af mörkum í samfélaginu. Bessastaðir eru aðsetur þjóðhöfðingja en um leið hús okkar allra.
Myndasafn frá gestagangi á Bessastöðum á Safnanótt má sjá hér á vefsíðu embættisins.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 3. febrúar 2024.