Nú er lokið Englandsferð okkar Elizu og náðum við að koma ýmsu í verk. Á þriðjudaginn var hóf ég leikinn með því að flytja opnunarerindi á ráðstefnu hjá RUSI, Royal United Services Institute, í London. Þar var sjónum beint að öryggismálum á norðurslóðum frá seinni heimsstyrjöld til okkar daga og fluttu bæði Íslendingar og Bretar erindi um það efni frá ýmsum sjónarhornum. Sendiráð Íslands kom að skipulagningu ráðstefnunnar og þakka ég Sturlu Sigurjónssyni sendiherra og öllu starfsliði fyrir þeirra atbeina í þeim efnum.
Síðdegis lá leiðin til Oxford þar sem ég flutti fyrirlestur í mínum gamla skóla, St Antony’s College. Yfirskriftin var skemmtileg, þótt ég segi sjálfur frá: „Where you stand depends on where you sit: The challenges of being an academic turned head of state.“ Ég ræddi þar um þjóðernishyggju, söguskoðun og önnur brýn málefni samtímans, meðal annars út frá þeim sannindum að sjónarhorn hvers og eins getur verið ólíkt og ráðist af stöðu, hagsmunum og skyldum. Um þetta sköpuðust fróðlegar viðræður og einhver í hópnum urðu að minnsta kosti einhvers vísari um þorskastríðin – sem við Íslendingar unnum þótt þau hafi nú ekki verið raunveruleg „stríð“ í þeim skilningi sem oftast er lagður í það orð.
Á fimmtudag var heilsa frá vöggu til efri ára í fyrirrúmi. Í minni forsetatíð hef ég viljað hampa mikilvægi geðheilbrigðis og lýðheilsu í samfélaginu. Slíkur málflutningur getur víða fengið hljómgrunn, sem betur fer. Fyrst lá leiðin til Wellcome-safnsins þar sem starfsfólk kynnti safnkost og sýningar sem lúta að velferð almennings í breiðum skilningi. Til fróðleiks má nefna að mér var sýnt fræðirit frá sautjándu öld þar sem frá því var greint að vegna sífellds myrkurs helming ársins plagaði þunglyndi Íslendinga en á móti kæmi að sífellt át á hertum fiski gerði þá öðrum þjóðum langlífari.
Síðar sama dag hélt ég í Kensingtonhöll þar sem Royal Foundation Centre for Early Childhood er til húsa. Katrín prinsessa af Wales stofnaði þá rannsóknamiðstöð fyrir þremur árum. Hún hefur sýnt áhuga á norrænum rannsóknum, sem Ísland stóð fyrir, um mikilvægi fyrstu 1000 daga lífsins fyrir geðheilsu og vellíðan ævina á enda. Prinsessan hefur sjálf glímt við veikindi og kom ég á framfæri óskum til hennar um góðan bata og þá einnig til Karls konungs III. Hann undirgengst nú krabbameinsmeðferð og hefur því slegið á frest eða fellt niður embættiserindi af ýmsu tagi.
Sama dag sótti Eliza ráðstefnuna Global Soft Power Summit. Þar sat hún í pallborði um óbeint vald maka þjóðarleiðtoga og leiðir þeirra til að nýta þá stöðu þjóðum sínum í hag. Þar voru einnig Olena Zelenska, forsetafrú Úkraínu, og Aleš Musar, forsetamaki í Slóveníu. Að kvöldi hélt Eliza svo erindi um leið Íslands að kynjajafnrétti í Canada Club, félagsskap ytra sem er meira en 200 ára gamall.
Innblásinn af umræðum um mikilvægi þess að hlúa að eigin heilsu eftir bestu getu fór ég í hlaupatúr um Hyde Park og Kensingtongarð, í fallegri og þægilegri treyju sem liðsmenn Eyrarskokks á Akureyri færðu mér að gjöf þegar við hlupum saman í Kjarnaskógi í vetur. Garðarnir í Lundúnum eru fallegir. Heima er samt alltaf best.
Í gær naut ég svo þess heiðurs að flytja ávarp í Listaháskóla Íslands við setningu háskóladagsins þar sem námsframboð á háskólastigi var kynnt. Að kvöldi sótti ég svo Söngvakeppni RÚV í sneisafullri Laugardalshöll. Ég þakka öllum sem kepptu fyrir þeirra flotta framlag og sigurvegaranum Heru óska ég innilega til hamingju með sigurinn.
Á morgun liggur leiðin svo til Georgíu. Þangað held ég í opinbera heimsókn, leita leiða til að styrkja samstarf Íslendinga og Georgíumanna á sviði grænnar orku og efla tengsl við þessa fjarlægu þjóð.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 3. mars 2024.