Fréttapistill | 09. mars 2024

Opinberri heimsókn til Georgíu lokið

Nú er ég kominn heim eftir opinbera heimsókn til Georgíu. Ferðin var vel heppnuð í alla staði. Með í för var Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, og viðskiptasendinefnd undir forystu Nóttar Thorberg, framkvæmdastjóra Grænvangs. Gestgjafi minn, Salome Zourabichvili forseti, var höfðingi heim að sækja og sama má segja um öll önnur sem tóku á móti okkur Íslendingum í þessu fjarlæga og fallega landi. Við kynntumst sögu þess og menningu og unnum að því að efla tengsl Íslendinga og Georgíumanna, ekki síst á sviði grænnar orku.

Þar í landi eru bæði jarðvarmi og vatnsafl vannýttar auðlindir og á tvíhliða fundum okkar kom fram mikill áhugi á auknu samstarfi á milli landanna. Nú þegar hefur slíkt samstarf getið af sér vatnsaflsstöðina Akhalkalaki, fyrstu fjárfestingu Landsvirkjunar utan landsteinanna sem sett er í rekstur og sér hún um 30.000 georgískum heimilum fyrir rafmagni.

Milli Íslands og Georgíu liggja einnig bókmenntaþræðir sem vert er að kanna frekar. Með mér í för var Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, og áttum við saman fund með rektor og forstöðumanni Skandinavíudeildar Ríkisháskólans í Tbilisi vegna fyrirhugaðrar samvinnu um rannsóknir á tengslum forníslenskra bókmennta og miðaldarita Georgíumanna. Eitt helsta þjóðskáld þeirra, Shota Rustaveli, var samtímamaður Snorra Sturlusonar og í nokkrum fornum handritum er fjallað um Georgíu og nágrenni. Við háskólann flutti ég líka fyrirlestur um áhrif Íslands á alþjóðavettvangi og átti fund með Íslendingafélaginu í Tbilisi.

Í Tbilisi flutti ég einnig lykilerindi á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggis- og varnarmál. Þau eru ofarlega á baugi í Georgíu, sem er umsóknarríki um aðild að Atlantshafsbandalaginu, og styðja íslensk stjórnvöld þá vegferð. Um 20% landsins eru hersetin af Rússum og fór ég vettvangsferð að stjórnsýslumörkum Suður-Ossetíu. Þar fékk ég kynningu á stöðu mannúðarmála en Rússar hafa haft hernámslið í héraðinu allt frá innrás þeirra í Georgíu árið 2008.

Loks má geta þess að okkur gafst tækifæri til að heimsækja hina fornu hellaborg Vardzia sem grafin var inn í fjalllendi í suðurhluta Georgíu á 12. öld og hýsti hundruð manna þegar Tamar drottning réð ríkjum í Georgíu. Þetta mikla mannvirki skemmdist mikið í jarðskjálftum um svipað leyti og jarðeldar geysuðu síðast á Reykjanesskaga fyrir nokkrum öldum. Sá hluti, sem hefur varðveist, er nú á heimsminjaskrá UNESCO og til vitnis um merka sögu þessa litla lands í Kákasus.

Ég hélt heim með góðar minningar og þakka Georgíumönnum fyrir gestrisnina. Myndasafn frá opinberri heimsókn minni til Georgíu má sjá á vef forsetaembættisins auk nánari fregna.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 9. mars 2024.

  • Móttökuathöfn við upphaf opinberrar heimsóknar til Georgíu með forsetanum Salome Zourabichvili, við Orbeliani-höllina í Tbilisi.
  • Fjölmiðlafundur að loknum tvíhliða fundi með Salome Zourabichvili, forseta Georgíu.
  • Fundað með Shalva Papuashvili, forseta georgíska þjóðþingsins.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar