Fréttapistill | 18. mars 2024

Enn eitt gosið við Grindavík

Um helgina hófst enn eitt gosið við Grindavík. Við mætum áfram þeim vanda, sjáum hvernig varnargarðar duga og hvort við þurfum að bæta við slík mannvirki. Um leið þurfum við varnargarða um samfélagið í Grindavík ef svo má að orði komast. Í gær voru fallegir tónleikar í Hörpu til styrktar ungmennum þar í bæ. Þau þurfa sitt æskulýðsstarf og þau þurfa að eiga þess kost að geta hitt vini sína á meðan allt er í óvissu um framtíðina.

Mér hlotnaðist sá heiður að flytja tónleikagestum stutta kveðju. Ég notaði tækifærið og þakkaði Grindvíkingum alla þá gestrisni og góðvild sem ég hef notið í heimabæ þeirra í minni forsetatíð. Þá þakkaði ég hversu mikinn sess íþrótta- og tómstundastarf hefur skipað þar, verið veigamikill þáttur hins myndarlega bæjarbrags. Þeim mun mikilvægara er að hlúa núna vel að börnum og unglingum frá Grindavík.

Þetta vita sumir úr hópi Fjallabræðra af eigin raun, með Halldór Gunnar Pálsson í broddi fylkingar. Í þeim skemmtilega kór eru nokkrir frá Flateyri sem nutu þess að fara í sumarbúðir á Akranesi eftir snjóflóðið mikla árið 1995. Þann vinarhug Skagamanna hafa þeir ætíð metið mikils og því vildu Fjallabræður leggja sitt af mörkum með tónleikunum í gær ásamt (öðru) frábæru tónlistarfólki.

Ég naut líka þess heiðurs að taka lokalag tónleikanna með Fjallabræðrum og Grindavíkurdætrum, þeim úrvalskór sem ég hlustaði síðast á í Grindavík stuttu áður en hamfarirnar dundu yfir í fyrra. Saman sungum við gamalkunnugt lag Óla popp sem samið var um Flateyri á sínum tíma en má kalla nokkurs konar þjóðsöng landsbyggðarinnar. Textanum breyttum við aðeins, kyrjuðum um hafið eða Þorbjörn sem að laðar okkur að, eins og heyra má á upptöku sem hér fylgir.

Ég þakka öllum sem skipulögðu þennan fallega viðburð og ekki síður þeim sem studdu söfnun fjár til styrktar ungmennum í Grindavík. Við eigum að standa saman þegar vá steðjar að. Það styrkir hvern og einn í þeirra raunum og eflir einnig samfélagið allt. Ég ítreka þakkir mínar til Grindvíkinga fyrir allan þeirra vinarhug í áranna rás. Við gefumst ekki upp og munum þrauka í þessum mótbyr.

Birtist fyrsta með myndbandi á facebook-síðu forseta 18. mars 2024.

  • Ljósmynd/Þorgeir Ólafsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar