Víst er að við hemjum ekki ægimátt náttúruaflanna. Við reynum samt að minnka þann skaða sem þau geta valdið. Í gær fékk ég að fræðast um gerð varnargarða og lagningu vega yfir nýrunnið hraun í grennd við Grindavík. Naut ég þar leiðsagnar Jóns Hauks Steingrímssonar jarðverkfræðings. Ég náði að kasta kveðju á nokkra þeirra snillinga sem þarna hafa unnið og þakka fyrir allt þeirra vit og strit að undanförnu.
Magnað er að sjá hversu mikið hraun hefur myndast við Sundhnúkagíga og ekki síður hvernig varnarveggir hafa skilað sínu. Svo var óneitanlega sérstakt að aka vegarspotta þar sem hár hraunveggur var fyrir nokkrum dögum. Enn gýs og verið er að hækka og styrkja garðana við Svartsengi og Grindavík. Þeir sem því sinna eiga skilið lof og hlýjar kveðjur okkar Íslendinga.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 23. mars 2024.