Í dag fermdust börn frá Grindavík hér á Bessastöðum í hinni fallegu kirkju okkar Álftnesinga og þjóðarinnar allrar. Mér þótti vænt um þá frómu ósk Grindvíkinga að fermingar ungmenna úr þeirra heimabyggð skyldu fara fram hér fyrst það var ekki unnt þar. Fyrr í vor hafa tveir hópar frá Grindavík staðfest trú sína í Bessastaðakirkju og nú var komið að þeim síðasta. Fyrir athöfnina færði ég fermingarbörnunum bestu árnaðaróskir. Þá kveðju flyt ég nú einnig öllum öðrum ungmennum við þessi og svipuð tímamót í lífi þeirra.
Á föstudaginn var önnur virðingarstund á þjóðhöfðingjasetrinu sem minnti okkur á helstu grunngildi kristinnar trúar, samúð og samkennd, mildi og manngæsku, umburðarlyndi og víðsýni. Mér hlotnaðist sá heiður að taka á móti hópi ungmenna ásamt fulltrúum minningar- og styrktarsjóðsins Arnarins. Á vettvangi hans er staðið að helgardvöl og samverustundum fyrir börn og unglinga sem misst hafa náinn ástvin. Þessa helgi liggur leið þeirra í Vatnaskóg. Matthildur Bjarnadóttir, guðfræðingur og sorgarráðgjafi, er verkefnisstjóri Arnarins sem hefur bækistöðvar í Vídalínskirkju í Garðabæ. Ég þakka öllum þeim sem hafa lagt Erninum lið með ýmsum hætti.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 14. apríl 2025.