Fréttapistill | 21. apr. 2024

„Grímsvatnahreppur"

Nú er ég kominn heim úr „opinberri heimsókn" í Grímsvatnahrepp, ef svo má segja. Hálendi Íslands er fjársjóður, falinn hverri kynslóð til varðveislu. Ósnortin víðerni næra líkama og sál og fagurt er á fjöllum. Þá eru jöklar okkar magnþrungnir. Um leið eru þeir forðabúr virkjana og unnt er að nýta vatnsafl á sjálfbæran máta og umhverfisvænan þegar vel er að verki að staðið.

Við héldum allnokkur að Grímsvötnum í Vatnajökli. Flest í hópnum eru í Jöklarannsóknafélagi Íslands sem var stofnað árið 1950 til að sinna jöklarannsóknum og ferðalögum á jöklum landsins. Starfið byggir á samvinnu vísindamanna og sjálfboðaliða. Við gistum í Jökulheimum, skála félagsins í Tungnaárbotnum, en héldum einnig í hús þess á Grímsfjalli í Grímsvatnahreppi svo að það nafn sé notað sem frumherjar Jöklarannsóknafélagsins gáfu staðnum í gamni. Þótt félagið sinni fyrst og fremst rannsóknum hefur líf og fjör ætíð einkennt starf þess og ferðir.

Uppi á Vatnajökli og við rætur hans kynnti ég mér sögu félagsins og ferða á ökutækjum um hálendi Íslands og jökla. Þá fræddi Guðfinna Aðalgeirsdóttir, stjórnarmaður í Jöklarannsóknafélaginu og prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, okkur um eldvirkni undir Grímsvötnum og víðar á Vatnajökli. Svo var ekki verra að þeysast aðeins um á buggbíl Krystians Sadowskis, heilsa upp á aðra ferðalanga á jökli og lenda í smá basli eins og vænta mátti.

Ég þakka fjallagörpunum fyrir samfylgdina. Ég varð margs vísari um hálendið og kallast ferðin á sinn hátt á við aðra reisu sem ég hélt í við upphaf minnar forsetatíðar 2016. Þá hélt ég á hálendið við Landmannalaugar með hópi áhugamanna um náttúruvernd og fræddist meðal annars um þá hugmynd að gera hálendi Íslands að þjóðgarði. Nánari upplýsingar og myndir má finna á vefsíðu embættisins forseti.is.

Birt á facebook-síðu forseta þann 21. apríl 2024.

Frétt: Grímsfjall og Jökulheimar

Myndasafn frá för forseta á Vatnajökul.

  • Á leið í Jökulheima með Jöklarannsóknafélagi Íslands.
  • Við skála Jöklarannsóknafélags Íslands í Jökulheimum.
  • Með Snæbirni Sveinssyni eftir að hafa mokað sig inn í tækjageymsluna við skála Jöklarannsóknafélags Íslands á Grímsfjalli.
  • Buggbíll Krystians Sadowskis prufukeyrður.
  • Með Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og stjórnarmanni í Jöklarannsóknafélaginu, við skála félagsins á Grímsfjalli.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar