Fréttapistill | 25. apr. 2024

Lýðheilsuverðlaunin í annað sinn

Íslensku lýðheilsuverðlaunin hafa nú verið afhent í annað sinn. Ég óska handhöfum þeirra, Grunnskólanum á Ísafirði og Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, hjúkrunarfræðingi, hjartanlega til hamingju og þakka fyrir þeirra framlag til samfélagsins.

Við viljum stuðla að því að fólki líði vel á sál og líkama. Best er að hvert og eitt okkar sinni eigin heilsu eftir bestu getu en svo þarf líka hvata í samfélaginu og aðstoð þegar eitthvað bjátar á. Í víðum skilningi snýst lýðheilsa um vellíðan fólks. Hún snýst um jafnvægi og æðruleysi, sjálfstraust og auðmýkt, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Lýðheilsa snýst líka um aðgerðir stjórnvalda, fyrirtækja og stofnana. Í heilbrigðiskerfi okkar þurfum við að huga sífellt betur að forvirkum aðgerðum, koma í veg fyrir eða minnka líkur á að fólk þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. Það skilar sér í betri heilsu fólks og fjármunir sparast auk þess þegar allt kemur til alls.

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru veitt í tveimur flokkum. Í flokki starfsheildar hlaut Grunnskólinn í Ísafirði verðlaunin vegna fjallgönguverkefnis sem boðið hefur verið upp á fyrir alla árganga skólans í 30 ár. Einnig voru tilnefnd styrktarfélagið Gleym-mér-ei og félagasamtökin Traustur Kjarni.

Í flokki einstaklinga hlaut verðlaunin Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og Fagstjóri Sorgarmiðstöðvar. Guðrún Jóna er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Einnig voru tilnefnd Gunnhildur Yrsa Sigurðardóttir knattspyrnukona og Ólafur Elí Magnússon, íþróttakennari og eldhugi.

Ég óska öllum tilnefndu enn og aftur til hamingju og óska ykkur öllum, kæru landsmenn, góðrar heilsu og vellíðunar. Nánari upplýsingar og fleiri myndir má sjá á vefsíðu embættisins: https://www.forseti.is/fréttir/2024-04-2-lýðheilsuverðlaunin-2024-afhent/

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 25. apríl 2024.

  • Handhafar Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2024, þau Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og Kristján Arnar Ingason, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Ljósmynd/Anton Brink
  • Með handhöfum Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2024 auk þeirra sem tilnefnd voru ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og Ölmu D. Möller landlækni. Ljósmynd/Anton Brink.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar