Fréttapistill | 29. apr. 2024

Viðburðarík vorvika

Nýliðin vika var viðburðarík að vanda. Á miðvikudaginn var flutti ég hátíðarávarp á árlegri ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Norræna húsinu í Reykjavík, minnti þar á möguleika smáþjóðar til áhrifa í hörðum heimi þar sem raunsæi mætti helst ráða för.

Sama dag kynnti ég mér starf Blindrafélagsins og Blindravinnustofunnar í tilefni af alþjóðadegi leiðsöguhunda. Loks tók ég á móti þremur konum á Bessastöðum, þeim Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Kristínu Eiríksdóttur og Maríu Lilju Þrastardóttur. Sögðu þær frá atbeina sínum til stuðnings palestínsku fólki sem flýja þurfti Gaza og hafði dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Á sumardaginn fyrsta gerði ég víðreist, sótti hátíðarsamkomu Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi og Skeifudaginn að Mið-Fossum, húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands í Andakíl. Á báðum stöðum náði ég að þakka fyrir gestrisni og góðvild heimafólks í minni forsetatíð. Síðdegis tókum við Eliza svo á móti þátttakendum í alþjóðlegu ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat sem nú voru haldnar í tíunda sinn. Eliza og Erica Green stofnuðu viðburðinn á sínum tíma. Í þessum búðum gefst fólki færi á að þjálfa sig í ritlist undir leiðsögn þekktra höfunda, innlendra sem erlendra, og kynnast um leið íslenskum sagna- og menningararfi. Ég er mjög stoltur af þessu frábæra framtaki þeirra Elizu og Ericu og samstarfsfólks þeirra og er viss um að það mun áfram vaxa og dafna.

Að kvöldi var svo sýnt í sjónvarpi frá afhendingu Íslensku lýðheilsuverðlaunanna. Ég óska nýjum handhöfum þeirra og þeim sem tilnefnd voru innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. Einnig þakka ég öllum þeim sem koma að viðburðinum. Við eigum að leita allra leiða til að bæta líðan fólks á sál og líkama. Við eigum að hvetja fólk til að sinna eigin heilsu og sýna seiglu en eiga um leið heilbrigðis- og velferðarkerfi sem stendur undir nafni, þar sem hægt er að leita liðsinnis ef nauðsyn krefur. Við eigum þess vegna að efla forvirkar aðgerðir á sviði lýðheilsu í víðum skilningi, þó ekki væri nema vegna þess að það kostar minna en að glíma við aukinn vanda síðar.

Í gær var Stóri plokkdagurinn svo haldinn um allt land. Ég sagði nokkur orð við setningu hans í Grafarvogi í Reykjavík og plokkaði síðan á Álftanesi með stórum hópi sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins sem hafa flúið hingað frá hrjáðum löndum. Gaman var að heyra af fólki um allt land sem vill fegra umhverfi sitt.

Að lokum læt ég ekki hjá líða að óska Atla Örvarssyni hjartanlega til hamingju með BAFTA-verðlaunin sem honum voru veitt um helgina. Þá fagna ég því að karlalið Vals í handbolta er komið í úrslit Evrópukeppni. Er það aðeins í annað sinn sem íslenskt lið nær þeim árangri, gerðist síðast árið 1980 og þá voru Valsarar líka á ferð, unnu undanúrslitaleik í Laugardalshöllinni. Þar var ég og man leikinn og fögnuðinn eins og gerst hefði í gær. Gangi ykkur vel í úrslitunum núna, Valsmenn!

Nánari upplýsingar um verkefni líðandi stundar má að vanda finna á vefsíðu forsetaembættisins forseti.is. Aftur óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 29. apríl 2024.

  • Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar